Fréttaskýring: Hvenær getum við farið að nýta þessa skóga?

Trönum í fiskihjalla hlaðið á bíl á Hallormsstað haustið 2005.
Trönum í fiskihjalla hlaðið á bíl á Hallormsstað haustið 2005. mbl.is/Þór Þorfinnsson

Skógrækt og nýting auðlindarinnar hefur nokkuð verið til umræðu á síðustu mánuðum og eftirspurn eftir afurðum hefur aukist eftir bankahrunið.

„Þessi mál hafa komist í enn meiri brennidepil eftir að kreppan skall á. Við fáum alls konar fyrirspurnir og ekki síst er spurt „hvenær þessi skógur kemur og hvort við getum ekki farið að nota hann“,“ segir Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins.

Innflutningur á skógarafurðum nam 17,2 milljörðum króna í fyrra og dróst lítillega saman frá 2007, þar sem innflutningur var lítill síðustu þrjá mánuði 2008. Alls voru flutt inn um 78 þúsund tonn af viði að verðmæti um 8,7 milljarðar. Af pappír og pappa voru flutt inn 48 þúsund tonn að verðmæti 8,5 milljarðar. Innlend framleiðsla skógarafurða er 0,6% af innflutningi í tonnum talið og 0,5% af innflutningi í krónum.

Hægt að spara gjaldeyri

Í fyrirlestri Þrastar og Auðar Ottesen um íslenskan markað með skógarafurðir á fagráðstefnu skógræktar nýlega kom fram að Íslendingar gætu framleitt mest af þessu ef hér væri sterk skógarauðlind. Á þennan hátt væri hægt að spara yfir 10 milljarða króna í gjaldeyri.

Þröstur segir að það sé fullkomlega raunhæft að stefna að því að innlend framleiðsla verði allt að ¾ af notkun á viði, pappír og pappa. „Alltaf þegar við ræðum um skógrækt þá erum við að tala um áratugi, en eftir einn mannsaldur eða svo getum við hiklaust verið sjálfbær á mörgum sviðum,“ segir Þröstur.

„Byrjunin hjá okkur er orðin tvítug ef ég miða við upphaf Héraðsskóga og síðan landshlutabundinna skógræktarverkefna um og upp úr 1990. Reyndar er þegar farið að mjatlast inn í framleiðslu úr grisjun úr skógum sem voru gróðursettir upp úr 1950.“

Þröstur varpar því fram að um 4-5 áratugi geti tekið að verða sjálfbær í framleiðslu á borðum og plönkum. Hann nefnir einnig brennslu timburs sem kolefnisgjafa í málmblendi. 7-8 áratugi geti tekið að skapa forsendur til að setja upp spónaplötuverksmiðju, en stór hluti af innflutningi sé alls konar plötur, sem krefjist ekki mikilla timburgæða. Um 100 ár geti verið þar til grundvöllur skapist fyrir pappírsframleiðslu hér á landi, en þá verði strax að setja aukinn kraft í ræktunina.„Því lengur sem við bíðum með að byggja upp þessa auðlind í alvöru þá líður lengri tími þar til við getum farið að nýta hana,“ segir Þröstur.

Ríkið verður að taka þátt

Það eru einkum sitkagreni, alaskaösp, rússalerki og stafafura, sem gefa afurðir. Að sögn Þrastar þyrftu skógar ekki að þekja nema 5-10% af láglendi, en myndu samt gefa allt að ¾ af öllum þeim skógarafurðum sem Íslendingar nota.

Hann segir að ríkið verði að koma að uppbyggingunni því um langtímaverkefni sé að ræða. „Í skógrækt færðu arðinn kannski ekki fyrr en eftir 80 ár og í slíku langhlaupi er einkafjármagn einfaldlega ekki nógu þolinmótt. Í góðærinu slakaði ríkið á frá síðustu aldamótum, en nú þarf að meta stöðuna að nýju og svara því hvað við gerum þegar kreppan linar tökin,“ segir Þröstur Eysteinsson.

Margt smátt

Ýmsar afurðir íslensku skóganna eru nú þegar nýttar og spara dýrmætan gjaldeyri. Þannig eru tré úr skógunum orðin nægilega há til að nýta í fiskhjalla, en sá markaður er sveiflukenndur. Sala arinviðar úr birki, furu og lerki hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Líklegt er að innlend framleiðsla hafi komið í staðinn fyrir innfluttan arinvið og einnig eldivið til að baka pitsur.
Fyrirtækið Hestalist hóf að kaupa innlendan grisjunarvið til sinnar framleiðslu árið 2008, en fyrirtækið framleiðir þurrkaða hefilspæni sem notaðir eru sem undirburður undir húsdýr. Í fyrra voru flutt inn tæplega 2400 tonn, en eftir fall krónunnar í fyrrahaust hefur Skógrækt ríkisins leitast við að auka grisjun og sinna þessum markaði. Þörfin fyrir þessa einu afurð er þó meiri en íslenskir skógar geta annað að svo stöddu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert