Þarf skýrar línur um ESB aðild

Jóhanna Sigurðardóttir er ánægð með að konur séu nú 43% …
Jóhanna Sigurðardóttir er ánægð með að konur séu nú 43% þingmanna. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, kveðst mjög ánægð með úrslit kosninganna. „Samfylkingin er orðin stærsti flokkur landsins í fyrsta skipti í lýðveldissögunni. Við erum búin að fá forystuhlutverk sem burðarásin í íslenskum stjórnmálum og erum mjög ánægð með það.“ Hún vekur ennfremur athygli á því að Samfylkingin sé nú orðin stærsti flokkurinn í fjórum kjördæmum af sex.

Niðurstaðan kosninganna endurspegli enn fremur ákveðið uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn og nýfrjálshyggjuna. „Við teljum þetta vera kröfu fólks um að önnur gildi verði höfð í öndvegi hér í íslensku samfélagi.“ Verið sé að kalla eftir leiðum jafnaðarmanna til að ná þjóðfélaginu út úr núverandi hremmingum.

„Það er ánægjulegt að stjórnarflokkarnir eru með góðan meirihluta,“ segir Jóhanna og nefnir aukin hlut kvenna. „Þegar ég byrjaði í pólitík fyrir rúmum 30 árum þá voru konur 5% þingmanna, en nú eru þær 43%.“ Hún sé enn fremur sérstaklega ánægð með að helmingur þingmanna Samfylkingarinnar séu konur. „Það er mjög ánægjulegt.“

Um stjórnarmyndunarviðræður við Vinstri græna, segir Jóhanna ekkert liggja á. „Við erum með góðan meirihluta.“ Eftir samtöl þeirra Steingríms J. Sigfússonar, formans VG, í dag muni hún engu að síður óska eftir fundi með forseta á morgun. Þegar Jóhanna er spurð hvort að landsmenn megi búast við niðurstöðum úr þeim stjórnarmyndunarviðræðum fljótlega ítrekar hún að ekkert liggi á. „Það er nauðsynlegt að fá ákveðnar skýrar línur, t.d. varðandi aðildina að ESB sem að við leggjum mikla áherslu á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert