Funda um svínaflensu

Fundur um svínaflensuna hófst í höfuðstöðvum almannavarna klukkan 10 í …
Fundur um svínaflensuna hófst í höfuðstöðvum almannavarna klukkan 10 í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, átti í morgun fund með almannavarnardeild ríkislögreglustjóra sem lauk fyrir stundu. Nú tekur við fundur sóttvarnarlæknis og almannavarnardeildar með öllum þeim sem koma þurfa að málum þegar ákveðið er hvort og hvernig bregðast skuli við yfirvofandi heimsfaraldri. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu sitja þann fund fulltrúar frá heilbrigðisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, sóttvarnarlæknir Keflavíkurumdæmisins og á Reykjanesi, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, fulltrúi frá Varnarmálastofnun og forstjóri Keflavíkurflugvallar. 

Ræða á hvort og til hvaða aðgerða gripið verði. Ljóst þykir að horft verði til nágrannaþjóðanna og þeirra viðbragða. Haft hefur verið eftir Keiji Fukuda, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), að ógerningur sé að hindra frekari útbreiðslu svínflensunnar. Hvetur hann þjóðir heims þess í stað til þess að skerpa á viðbrögðum sínum og draga úr áhrifum flensunnar með öllu móti. 

Segir hann WHO ekki mæla með því að landamærum verði lokað eða takmarkanir settar á ferðafrelsi fólks.  „Það myndi ekki hafa nein áhrif, þar sem veiran hefur þegar dreift sér til margra landa,“ er haft eftir honum á fréttaveitu AP. 

Grunur leikur á um að svínaflensa hafi greinst hjá einum manni í Noregi og fimm einstaklingum í Danmörku.  Staðfest var í morgun, að 26 ára karlmaður í Ísrael, sem nýlega er kominn frá Mexíkó, væri með svínaflensuveiru. Þá hafa 11 staðfest tilfelli greinst á Nýja-Sjálandi. Í gær voru tvö tilfelli staðfest á Skotlandi og eitt á Spáni. Allir sjúklingarnir höfðu verið í Mexíkó. Enginn þeirra er talinn vera í lífshættu en til þessa hafa aðeins orðið dauðsföll í Mexíkó.

Boðað hefur verið til blaðamannafundar í húsnæði almannavarnardeildarinnar í Skógarhlíð 14 kl. 16 í dag. Þar verður farið yfir þær ákvarðanir sem teknar hafa verið á fundum dagsins hérlendis.

Kort yfir útbreiðslu svínaflensu á heimsvísu 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert