Bannar hvalveiðar á tveimur svæðum

Hvalveiðar verða bannaðar á tveimur svæðum, í Faxaflóa og á Tjörnesi, samkvæmt reglugerð sem Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf út í dag. Svæðin eru skilgreind sem hvalaskoðunarsvæði. Framkvæmdastjóri félags hrefnuveiðimanna segir minnkandi líkur á að hrefnuveiðimenn komi sér upp vinnslu á Akranesi.

Sjávarútvegsráðherra tiltók á blaðamannafundi í febrúar að afmörkuð yrðu svæði til hvalaskoðunar, þar sem með öllu verður óheimilt að stunda hvalveiðar. Þetta væri gert á grundvelli laga og til þess að koma í veg fyrir árekstra milli þessara tveggja atvinnugreina. Í kjölfarið fól sjávarútvegsráðherra Hafrannsóknastofnuninni að útbúa tillögur að slíkum svæðum að undangengnu samráði við hagsmunaaðila. Í lok mars bárust tillögur Hafró og hafa þær síðan verið til kynningar á vefsvæði ráðuneytisins og mögulegt hefur verið að koma að athugasemdum.

Að fengnum þessum tillögum og athugasemdum sem borist hafa, hefur Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifað undir reglugerð þar sem tvö hvalaskoðunarsvæði eru afmörkuð í Faxaflóa og milli Tröllaskaga og Mánáreyja norður af Tjörnesi.

Í frétt ráðuneytisins segir að augljóst sé að hér eru mismunandi hagsmunir á ferðinni.

„En tilgangurinn með afmörkun svæðanna er að draga úr hagsmunaárekstrum og hljóta þeir aðilar sem í hlut eiga að virða það.  Það er von sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ákvörðun þessara svæða megi verða til þess að þær tvær atvinnugreinar sem um ræðir geti eftirleiðis starfað í betri sátt,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Umsóknarfrestur úti í dag

Veitt hafa verið þrjú veiðileyfi til hrefnuveiði á komandi vertíð, eftir því sem fram kemur á Skessuhorni en umsóknarfrestur um leyfi til hrefnuveiða rennur út. Þau leyfi sem veitt hafa verið eru til útgerðar Halldórs Sigurðssonar, sem gerir út frá Ísafirði, Drafnar frá Reykjavík og Njarðar frá Kópavogi. Þetta eru þeir bátar sem beitt hefur verið til hrefnuveiða síðustu árin og útgerðir þeirra eiga aðild að Félagi hrefnuveiðimanna. Gunnar Bergmann Jónsson framkvæmdastjóri félagsins telur að aðrir verði ekki búnir að afla sér réttinda til að geta stundað veiðarnar í sumar. Gunnar Bergmann segir í samtali við Skessuhorn að framganga ráðuneytis og Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra hafi orðið til að hleypa málum í óvissu.

Það hafi hann gert bæði með yfirlýsingum við erlenda fjölmiðla þess efnis að leyfi til hvalveiða verði endurskoðað eftir eitt ár og þá hugsanlega afturkölluð. Einnig hafi ráðherrann með auglýsingu opnað fyrir að hver sem er gæti stundað hrefnuveiðarnar með því að fara á skotvopnanámskeið án þess að reynsla við hrefnuveiðar væri skilgreind. Það hafi síðan verið endurskoðað.

Það segi sig alveg sjálft að þessi vinnubrögð hafi kostað það að menn væru ekki tilbúnir að setja jafnmikið fjármagn inn í veiðar og vinnslu og ef veiðileyfi næstu fimm árin væru tryggð. Hann sagði að í dag væri það aðallega til skoðunar hvort kjötvinnslur gætu tekið á móti hrefnukjötinu til vinnslu. Því væri mun minni líkur en áður að hrefnuveiðimenn komi sér upp vinnslu á Akranesi.

Vefur Skessuhorns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert