Marþöll tré mánaðarins

Marþöllin í Grasagarðinum
Marþöllin í Grasagarðinum

Tré mánaðarins að þessu sinni er marþöll (Tsuga heterophylla) í Grasagarði Reykjavíkur. Tréð var gróðursett árið 1964 og kom úr Gróðrarstöð Skógræktarfélags Reykjavíkur í Fossvogi. Það er nú 8,9 metra hátt, ummál stofns í 0,4 m. hæð frá jörðu er 1,3 m. Þetta tré er með þeim stærstu sinnar tegundar á landinu og hefur dafnað einstaklega vel í góðu skjóli í Laugardalnum.  

Segir í niðurstöðu dómnefndar Skógræktarfélags Reykjavíkur að marþöllin er sígrænt, þokkafullt tré með slútandi greinum og árssprota sem rétta  sig ekki upp  fyrr en á öðru ári þegar nýr sproti tekur að myndast.  Nálar frekar litlar og mjúkar oft með tveimur ljósum rákum á neðra borði þegar trén stækka, lykt af brotnum nálum minnir á gulrætur.  Könglar um 2 cm á lengd.

„Marþöllin í Grasagarðinum er þakin könglum og hefur tekist að fjölga trjám út frá henni þó ekki gangi það vel.  Við teljum þetta vera stærstu marþöll í borginni, en kröftugar þallir vaxa líka á Hallormsstað, í Fljótshlíð og Skorradal og víðar. Marþöllin er skuggþolin, rakakær og   þarfnast greinilega skjóls í uppeldinu hér á landi.

Um tíu tegundir þalla eru í heiminum og er marþöllin þeirra stærst. Sex tegundir vaxa í A-Asíu og fjórar í N-Ameríku. Marþöll og fjallaþöll eru þær tegundir sem helst hafa verið ræktaðar hérlendis og eru þær báðar fluttar inn frá Alaska.  Marþöllin vex með Kyrrahafsströndinni frá Kaliforníu og allt upp á Kenaiskaga í Alaska. Hefur hún svipað útbreiðslusvæði og sitkagrenið en vex þó lengra inn til landsins. Hún vex með sitkagreninu í hinum miklu strandskógum á þessu svæði og þrífst því betur sem jarð- og loftraki er meiri. Verður yfirgnæfandi tegund í skóginum, nær oft 60 metra hæð og verður mörg hundruð ára gömul, elsta þekkta tréð er meira en  1200 ára!

Frumbyggjar Ameríku nýttu sér marþöllina ekki aðeins til smíða heldur líka til matargerðar, börkurinn var notaður til litunar og  innri börkur bæði étinn hrár og notaður í brauðgerð, te var gert úr C-vítamínríkum nálum og árssprotum osfrv. Þá voru og eru greinar trésins notaðar sem hrognagildrur þar sem síld kemur  til að hrygningar í árósum suðaustur Alaska. Ekki er að undra að fólk sem bjó í nánu sambýli við tré í þúsundir ára hafi komist upp á lag með  að nýta  hvaðeina af trénu, líkt og Samarnir hreindýrin og við  Íslendingar sauðkindina. Reyndar hefur líka allskonar lágvaxinn gróður verið nýttur á ótrúlega fjölbreytilegan hátt hér á landi eftir eyðingu stærsta hluta gömlu skóganna.

Marþöll er mikið ræktuð, viður hennar er notaður til margskonar smíða og fáar tegundir henta betur í pappírsframleiðslu. Hún er líka algeng sem stásstré á útivistarsvæðum og í görðum í norðvestur Evrópu og á Nýja-Sjálandi og dreifir sér þar af sjálfsdáðum. Til er fjöldinn allur af ræktunarafbrigðum marþallar sem notuð eru í görðum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert