Skerðing þjónustu óhjákvæmileg

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra mbl.is/Kristinn

„Þessi yfirlýsing hefur borist mér í hendur og að sjálfsögðu tökum við hana mjög alvarlega. Því miður er niðurskurðurinn innan heilbrigðisþjónustunnar af þeirri stærðargráðu að mjög erfitt er að komast hjá því að þjónusta skerðist á einhverjum sviðum, jafnvel þótt það sé meginmarkmið okkar að koma í veg fyrir að svo verði,“ segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra um boðaða skerðingu þjónustu heilsugæslu höfuðborgarinnar.

Læknaráð heilsugæslulækna á höfuðborgarsvæðinu segir í ályktun að þjónusta heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu muni skerðast frá og með 1. maí vegna sparnaðarráðstafana yfirstjórnar heilsugæslunnar. Skerðing kemur til vegna minnkaðs tímaframboðs hjá heilsugæslulæknum.

Heilbrigðisráðherra segir að vandinn sé að allar stofnanir innan heilbrigðisþjónustunnar hafi þurft að draga úr kostnaði og heilsugæslan hafi reynt að forgangsraða með þeim hætti að minnka kostnað í stjórnsýslunni en komast hjá niðurskurði á beinum þjónustuliðum.

„Ég ítreka að þegar verið er að spara af þessari stærðargráðu þá er óskaplega erfitt að komast hjá því að þjónustan skerðist eitthvað. Ég er ekki bara að tala 6,7 milljarða sparnað í heilbrigðiskerfinu á þessu ári. Ég er líka að tala um þann gríðarlanga skuldahala sem Sjálfstæðisflokkurinn skilaði okkur út úr meintu góðæri, inn í kreppuna. Þar hefur heilsugæslan einmitt glímt við langan hala. Þetta eru erfiðleikarnir sem við stöndum frammi fyrir og það er ekkert auðvelt hlutskipti þeirra sem að halda þarna um stjórnvölinn,“ segir Ögmundur Jónasson.

Hann segir þetta krefjast yfirvegunar við alla forgangsröðun í ráðstöfun fjármuna. Strax og þessi ríkisstjórn, sem nú er í burðarliðnum, er tekin til starfa, muni hann efna til víðtæks samstarfs innan heilsugæslunnar við lækna og aðrar stéttir sem þar starfa.

„Vandinn er sá að á undanförnum misserum hefur þetta samráð verið forsómað en ég tel hins vegar að það sé forsenda þess að okkur takist farssællega að komast í gegnum þessa erfiðleika. Það kallar að sjálfsögðu á samstarf allra hlutaðeigandi stétta. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að svo verði. En ég legg áherslu á að við munum aldrei komast út úr þessu nema með víðtæku samráði og samstarfi og ég mun hið allra fyrsta, strax og ný ríkisstjórn er tekin formlega til starfa, efna til slíks samstarfs með heilsugæslulæknum og öðrum starfsstéttum innan heilsugæslunnar,“ segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert