Stóra krafan er félagslegt réttlæti

mbl.is/Júlíus

„Framundan eru nú viðræður allra heildarsamtaka launamanna á vinnumarkaði, atvinnurekenda og ríkisvaldsins. Þar hlýtur stóra krafan að vera um félagslegt réttlæti,“ segir í 1. maí ávarpi verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Þar segir að ná þurfi sáttum í þjóðfélaginu á forsendum almennings, launafólks og heimilanna í landinu. Finna þurfi leiðir til að koma heimilunum út úr vítahring hárra vaxta og verðtryggingar. Aðhaldsaðgerðir stjórnvalda megi ekki bitna ekki á þeim sem við lökust kjör búa og ekki megi skerða grunnþjónustu.

Yfirskrift 1. maí ávarps verkalýðsfélaganna í Reykjavík er „Byggjum réttlátt þjóðfélag.“

Vikið er að hruni fjármálafyrirtækja og hömlum á gjaldeyrisviðskipti, sem hafa valdið miklum búsifjum og leitt til keðjuverkandi hruns í atvinnulífinu með atvinnuleysi og þrengingum. Í ávarpinu segir að við þær aðstæður sem uppi eru, sé mikilvægara en nokkru sinni að jafna kjörin í landinu og styrkja innviði samfélagsins. Aðeins með samstöðu og samheldni muni þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum enda undirstöður íslensks efnahagslífs traustar og á þeim megi byggja til framtíðar.

„Forsenda samstöðunnar er jöfnuður og félagslegt réttlæti. Kjarabilið hefur farið ört breikkandi, þar með talið kynbundið launamisrétti. Það ber vott um ófyrirleitni og algert dómgreindarleysi þegar kallað er eftir samstöðu lágtekjufólks án þess að heita jafnframt stuðningi við róttækar jöfnunaraðgerðir. Slíkt hefur holan hljóm og er til marks um hræsni. Því er alfarið hafnað að almennt launafólk verði eitt látið bera allan herkostnaðinn af óráðsíu og bruðli undanfarinna ára,“ segir í ávarpinu.

Gríðarleg verkefni en gerleg

Framtíðarsýnin sem dregin er upp í ávarpinu er ekki glæsileg en engu að síður þurfi þjóðin að horfast í augu við hana. Verkefnin sem íslensk alþýða standi frammi fyrir séu gríðarleg en þau séu gerleg svo lengi sem launafólk hafni undirferli og siðleysi auðmagns og stjórnmála.

„Verkefnin eru meðal annars; endurreisn heimilanna með sanngjörnum hætti, árangursríkar aðgerðir gegn atvinnuleysi, endurreisn fjármálakerfisins og fyrirtækjanna, endurheimt þjóðarinnar á öllum sameiginlegum náttúruauðlindum og trygging fyrir því að auðmagnið og ofurauðmenn geti aldrei sölsað þær undir sig aftur, tafarlaus lækkun vaxta og endurskoðun verðtryggingar, stöðugleiki í opinberum rekstri, sanngjarnar greiðslur og greiðslubyrði af erlendum skuldum, stöðugleiki í peningamálastefnu og traust mynt þjóðinni til handa sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum og á gjaldeyrismarkaði.“

Hinir seku svari til saka

Í ávarpinu segir að á tímum sem þessum sé mikilvægt að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins. Aðhaldsaðgerðir stjórnvalda megi ekki bitna á þeim sem við lökust kjör búa. Þá sé mikilvægt að heilbrigðisþjónusta og menntun verði ekki skert. Rannsókn á aðdraganda bankakreppunnar verði að vinna á  gagnsæjan hátt þannig að almenningur geti fylgst með hverju stigi rannsóknarinnar og refsa verði þeim sem bera ábyrgð á hruni bankakerfisins og fyrirtækjanna. Það verði engin sannleiks- og sáttanefnd á Íslandi fyrr en þeir sem báru ábyrgð á kreppunni hafi svarað til saka fyrir misgjörðir sínar.

1. maí ávarp verkalýðsfélaganna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert