Hundeltur af LÍN

Lánasjóður íslenskra námsmanna neitaði Ægi Sævarssyni, atvinnulausum föður þriggja barna, um greiðslufrest hjá stofnuninni og sendi kröfuna til innheimtufyrirtækisins Intrum Justitia.  Ægir Sævarsson var söluráðgjafi hjá Skýrr en missti vinnuna í mars. Kona hans er í námi en þau hafa fyrir þremur börnum að sjá.

Lánasjóðurinn segir hann ekki hafa verið atvinnulausan nógu lengi til að eiga rétt á frystingu. Samkvæmt reglum sjóðsins þurfa að líða fjórir mánuðir frá því að fólk missir vinnuna þar til það á rétt á slíkri fyrirgreiðslu.

Undanfarið hefur Ægir hinsvegar gengið lánastofnana til að fá lánin fryst til að geta rekið heimilið á bótum. Hann segir mikilvægt að bregðast við áður en allt fari í óefni og sérkennilegt að vera hundeltur af LÍN af öllum stofnunum. Það séu átján þúsund manns atvinnulausir og það taki lengri tíma að finna vinnu en í venjulegu árferði. Lánasjóðurinn hafi verið erfiðastur viðureignar af öllum sem hann hafi rætt við og hann hafi staðið andspænis því að greiða allt strax eða missa það í innheimtu.

  
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert