Flugstoðir fá að nota vörumerkið ICEAVIA

Brynjar Gauti

Hæstiréttur sneri í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli Flugstoða ohf. á hendur Hilmari F. Foss. Snerist málið um heimild Flugstoða til að nota vörumerkið ICEAVIA, sem Hilmar hafði látið skrá árið 1992. Hélt hann því fram að hann hefði notað það reglulega og að sú notkun uppfyllti skilyrði laga.

Var því haldið fram af hálfu Flugstoða að vörumerkið hefði ekki verið notað hér á landi í aða minnsta kosti fimm ár, með þeim hætti sem þurfi til að geta viðhaldið skráningu þess, samkvæmt lögum um vörumerki. Ákvæði laganna gera þær kröfur að notkunin þurfi að hafa verið raunverulega en ekki til málamynda og tengjast þeirri vöru eða þjónustu sem tiltekin er í skráningu.

Í þessu tilviki var tilgangur skráningarinnar flutningar, pökkun og geymsla vöru, og ferðaþjónusta. Taldi dómurinn að Hilmar Foss hefði sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi notað vörumerkið með þeim hætti sem áskilið er.

Taldi dómurinn að Hilmar hafi notað ICEAVIA sem nokkurs konar firmaheiti yfir persónulega starfsemi sína sem ráðgjafi um flugmál. Hvorki hafi verið í ljós leitt að hann hafi markaðssett starfsemi sem lúti að flutningum, pökkun og geymslu vöru eða ferðaþjónustu með auglýsingum eða annarri kynningu á vörumerki sínu né notað það í raun hér á landi í tengslum við slíka starfsemi. Var krafa Flugstoða um ógildingu skráningar á vörumerkinu því tekin til greina.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að andstæðri niðurstöðu 13. maí 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert