Í gæsluvarðhald grunuð um fíkniefnasmygl

Konan er grunuð um að hafa skipulagt fíkniefnasmygl. Mynd úr …
Konan er grunuð um að hafa skipulagt fíkniefnasmygl. Mynd úr myndasafni. mbl.is/Júlíus

Kona um þrítugt var í síðustu viku úrskurðuð í gæsluvarðhald til 12. maí, en hún er grunuð um að hafa skipulagt fíkniefnasmygl til landsins. Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, segir að konan sé íslenskur ríkisborgari. Hún var einnig úrskurðuð í gæsluvarðhald fyrr á árinu.

Þá úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness konuna í gæsluvarðhald til 27. febrúar. Konan var þá grunuð um að hafa haft atvinnu af vændi ungra kvenna, sem hún hafi flutt hingað til lands. Hún var þá einnig grunuð um aðild að fíkniefnamáli. Konan kærði úrskurðinn en Hæstiréttur vísaði málinu frá.

Fram kom í úrskurði héraðsdóms, að lögreglu hefði borist upplýsingar um að konan og unnusti hennar hefðu farið til Hollands og ætluðu að flytja með sér mikið magn af fíkniefnum. Unnustinn var síðan handtekinn á Schipholflugvelli í Amsterdam þann 13. febrúar sl. með mikið magn fíkniefna í sínum vörslum.

Þá sagðist lögreglan fyrr á þessu ári hafa rökstuddan grun um að konan tengdist fyrirhuguðum innflutningi fíkniefnanna frá Hollandi. Þá hefði verið til staðar rökstuddur grunur þess efnis að málið tengdist mun umfangsmeiri innflutningi fíkniefna hingað til lands á undanförnum mánuðum og árum. 

Tengsl við belgísk burðardýr

Aðspurður segir Karl Steinar að hugsanleg tengsl séu á milli konunnar og tveggja belgískra kvenna á þrítugsaldri sem voru handteknar í Leifsstöð með u.þ.b. 350 grömm af kókaíni í síðasta mánuði. Konurnar komu til landsins með flugi frá Amsterdam og voru á mánudag dæmdar í 10 mánaða fangelsi fyrir kókaínsmyglið.

Konunar voru samvinnufúsar við rannsókn málsins og bentu á mynd hjá lögreglu af þeim sem skipulagði innflutning fíkniefnanna. Var þetta virt konunum til lækkunar refsingar.

Þá er einnig talið að belgískur karlmaður á þrítugsaldri sem reyndi að flytja fíkniefni til landsins innvortis tengist konunni. Maðurinn flúði frá lögreglu eftir handtöku í Leifsstöð í síðasta mánuði en náðist daginn eftir í miðbæ Keflavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert