Dælustöð Norðurorku olli hljóðinu í Richardshúsi á Hjalteyri

Richardshús á Hjalteyri við Eyjafjörð.
Richardshús á Hjalteyri við Eyjafjörð. mbl.is/Skapti

Hljóðið torkennilega sem hrjáði íbúa Richardshúss á Hjalteyri misserum saman stafaði af rafmengun frá dælustöð Norðurorku þar skammt frá. Þetta segir Arnar Pálsson hjá fyrirtækinu Hélog á Akureyri, sem Arnarheshreppur fékk til þess að rannsaka málið.

Þetta kom fram í Svæðisútvarpi RÚV á Norðurlandi undir kvöld. Vegna breytinga sem Norðurorka hefur gert er hljóðið því horfið. Rafmagn á dælustöðina kemur nú um jarðstreng frá Akureyri.

Arnar sagðist hafa gert umfangsmiklar rafseguls- og hljóðmælingar. Hann sagði töluverða rafmengun á svæðinu og hún hefði í raun bjagað rafkerfið allt niður á Hjalteyrina. Hann sagðist nú vera að skoða hvort rafmengunin hefði haft áhrif á starfsemi lúðueldis á Hjalteyri. Seiðadauði hefði verið töluverður og spurður um tjón sagði hann að forsvarsmenn fyrirtækisins sem rekur eldisstöðina yrðu að svara því, en skaut á að tjónið gæti numið tugum milljóna eða jafnvel hundrað milljónum.

Spurður um það hvort rafmengun væri hættuleg fólki, svaraði hann að skoðanir á því væru mismunandi en hann teldi svo vera; rafmengun væri að sínu mati hættuleg bæði fólki og dýrum.

Erna Jóhannsdóttir, fyrir miðju, í eldhúsi sínu, þar sem hljóðið …
Erna Jóhannsdóttir, fyrir miðju, í eldhúsi sínu, þar sem hljóðið heyrðist jafnan hæst. Hinir íbúar hússins, Sveinn Ingi Edvaldsson og Ingibjörg Bjarnadóttir, sitja við eldhúsborðið. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert