Gagnrýna styrki vegna skulda kirkna

Viðgerðir standa yfir á Hallgrímskirkju en gríðarlegar skemmdir hafa orðið …
Viðgerðir standa yfir á Hallgrímskirkju en gríðarlegar skemmdir hafa orðið á byggingunni. mbl.is/Ómar

Fulltrúar minnihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur gagnrýndu á fundi borgarráðs í dag að veita ætti styrki úr kirkjubyggingarsjóði til nokkurra kirkja vegna erfiðrar skuldastöðu þeirra. Fulltrúar meirihlutans sögðu að um væri að ræða verkefni sem lytu að eldri greiðslum vegna kirkjubygginga.

Á fundi borgarráðs voru til afgreiðslu tillögur stjórnar kirkjubyggingarsjóðs, sem lagði til að samtals yrðu veittir styrkir að fjárhæð 26 milljónir króna til verkefna í sjö kirkjum. Meðal annars lagði stjórn sjóðsins til að Grafarvogskirkja fái 4 milljónir króna vegna verulega erfiðrar skuldastöðu og Grensáskirkja 3 milljónir vegna erfiðrar skuldastöðu. Samkvæmt upplýsingum frá kirkjunum stafa erfiðleikarnir af mikilli hækkun lánanna.

Þá lagði stjórn sjóðsins til að Hallgrímskirkja fái 6 milljónir vegna gríðarlegra skemmda á byggingunni, Guðríðarkirkja í Grafarholti fái 5 milljónir til kaupa á kirkjuklukkum, Laugarneskirkja fái 4,5 milljónir vegna lekaskemmda, Háteigskirkja 2,5 milljónir vegna viðgerða á gólfi og Fríkirkjan í Reykjavík 1 milljón vegna breytinga á sönglofti.

Fulltrúar bæði Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sátu hjá við afgreiðslu styrkjanna á fundi borgarráðs í dag. Í bókun Samfylkingarinnar segir, að  hjásetan sé vegna nokkurra úthlutana sem eigi að fara til niðurgreiðslu gamalla húsnæðisskulda kirkja í Reykjavík en að sama skapi styðji fulltrúarnir heilshugar styrkveitingar til mannfrekra viðhaldsframkvæmda.

Borgarráðsfulltrúar VG létu bóka, að það sé áleitin spurning hvort ekki sé rétt að draga verulega úr styrkveitingum til kirkjubyggingarsjóðs í því árferði sem nú sé. Þá sé það greinilega brot á samþykktum um sjóðinn, ef veita eigi styrki til annars en framkvæmda en ekki hafi verið sýnt fram á að styrkir sem sótt sé um vegna „verulega erfiðrar skuldastöðu“ séu vegna endurbóta og meiriháttar viðhalds kirkja.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks létu bóka, að úthlutanir úr kirkjubyggingasjóði séu í fullu samræmi við samþykktir sjóðsins, þar sem flest verkefni séu vegna framkvæmda sem nú standi yfir en önnur verkefni lúti að eldri greiðslum vegna kirkjubygginga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert