Trabantinn lifði dauðann af

Trabant deluxe frá árinu 1987 er enn ekið um götur borgarinnar en þrír karlmenn úr sömu fjölskyldu hafa tekið miklu ástfóstri við bifreiðina í gegnum tíðina. Jóhann Kjartansson keypti hana ásamt föður sínum þótt hann langaði meira í glæsilega Lödu.

Þessi frumlega lúxusbifreið hefur ekki verið laus við áföll í lífinu frekar en aðrir. Þegar hún var ársgömul ók á hana sendibíll og í framhaldinu var hún dæmd ónýt og átti að fara á haugana. Faðir bræðranna fékk andvirðið greitt út í hönd en samdi síðan við tryggingafélagið um að kaupa hræið fyrir tíu þúsund krónur.

Síðan var tekið til við viðgerðir og Trabant deluxe ekur enn um göturnar meðan aðrar dýrari bifreiðar hafa safnast til feðra sinna.

Þeir feðgarnir áttu síðan bílinn saman í mörg ár en nutu aðstoðar Odds bróður Jóhanns við viðhald bílsins. Jóhann gaf bróður sínum helminginn í Trabantinum, eftir að faðir þeirra lést fyrir nokkrum árum gegn því að hann tæki alfarið að sér rekstur og viðhald.

Oddur fer nú allra sinna ferða á bílnum og oftar en ekki er Jóhann bróðir hans með. Þeir bræður vekja jafnan óskipta athygli. Jóhann segir að sérstaklega útlendingar séu fljótir til að grípa myndavélina og smella af þeim mynd þegar þeir stöðva bílinn á rauðu ljósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert