Helmingur námsmanna með vinnu

Aðeins rúmur helmingur framhaldsskólanema á landinu segist vera öruggur um að fá vinnu í sumar, samkvæmt nýrri könnun Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF). Vegna þessa segjast tæp 12% hafa áhyggjur af því að geta ekki sótt áframhaldandi nám í haust. „Þetta eru hræðilegar fréttir,“ segir Ómar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri SÍF.

SÍF, Rauði kross Íslands, Lýðheilsustöð, menntamálaráðuneytið o.fl. hafa tekið höndum saman um að finna úrræði til að koma í veg fyrir að fjöldi ungmenna sitji aðgerðalaus í sumar. Helst hefur verið rætt um að hvetja fólk til sjálfboðastarfa og er í athugun að í staðinn gæfu skólarnir námsmönnunum einingar.

Eitt helsta áhyggjuefnið er að atvinnuleysi getur leitt til aukinnar áfengis- og fíkniefnaneyslu. Þá geta efnahagslegar þrengingar haft slæm áhrif á geðheilsu ungmenna. „Þetta verður mjög krítískt sumar fyrir unga fólkið,“ segir Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði. „Ef kreppan verður langvinn verður málið enn alvarlegra. Bætist langvarandi atvinnuleysi ungs fólks við á næstu árum þá stöndum við frammi fyrir verkefni sem er mjög erfitt að leysa eftir á.“ Högni Óskarsson geðlæknir varar einnig við mjög slæmum afleiðingum atvinnuleysis í grein í blaðinu í dag.

Réttur framhaldsskólanema til grunnatvinnuleysisbóta er mismikill. Til að fá fullar bætur, tæpar 150 þúsund kr., þurfa þeir að hafa unnið samtals lengur en í 12 mánuði og eiga flestir því aðeins rétt á hluta af þeirri upphæð. Vinnumálastofnun býr sig nú undir törn í lok mánaðarins þegar skólarnir fara í frí en talið er að þeir sem skrái sig atvinnulausa geti skipt þúsundum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert