Innköllun veiðiheimilda hefjist 2010

Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs er miðað við, að áætlun um innköllun veiðiheimilda, í samræmi við stefnu beggja flokka, og endurráðstöfun þeirra taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. Þá verði framsal á aflaheimildum takmarkað og veiðiskylda aukin.

Í sáttmálanum segir, að undirstrikað verði með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá, að fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda sé tímabundinn afnotaréttur og myndi ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.

Bregðast þurfi frekar við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.

Eftirfarandi aðgerðir eru brýnar, samkvæmt samstarfsyfirlýsingunni: 

a) Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

b) Takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára.

c) Stofna auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar. Arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar.

d) Vernda grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.

e) Skipa ráðgefandi hópa útgerðarmanna og sjómanna varðandi veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástand í lífríki sjávar.

f) Heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina. 

Þá segir, að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að:

a) stuðla að vernd fiskistofna

b) stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar

c) treysta atvinnu

d) efla byggð í landinu

e) skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar

f) leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.

Endurskoðunin verður unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. Skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga. 

Réttur til að nýta sjávarauðlindir áskilinn 

Í samstarfsyfirlýsingunni segir, að Íslendingar áskilji sér hér eftir sem hingað til rétt til að nýta sjávarauðlindir samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

„Forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands," segir m.a. í sáttmálanum. 

Samstarfsyfirlýsingin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert