Engin ábyrgð vegna Kjúklingastrætis

Bandarískur hermaður í Kjúklingastræti í Kabúl þar sem árásin var …
Bandarískur hermaður í Kjúklingastræti í Kabúl þar sem árásin var gerð á íslensku friðargæsluliðana. AP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu íslensks friðargæsluliða vegna sjálfmorðsárásar, var gerð í Kjúklingastræti í Kabúl í Afganistan árið 2004. Krafðist maðurinn þess að viðurkennd yrði bótaskylda ríkisins vegna afleiðingar árásarinnar en því hafnaði dómurinn. 

Sá sem málið höfðaði, Friðrik Már Jónsson, starfaði sem flugumferðarstjóri á flugvellinum í Kabúl og var með þegar farið var í verslunarferð í Kjúklingastræti til að kaupa teppi í október 2004. Hann var ekki meðal þeirra þriggja Íslendinga, sem slösuðust mest í árásinni og slapp að mestu við líkamlega áverka, að heyrnarskemmd undanskilinni. Hins vegar komu fram síðbúin áhrif á heilsu hans, í formi áfallastreituröskunar, sem leiddu til þess að allt líf hans fór úr skorðum.

Maðurinn þurfti að hverfa frá störfum í Kabúl, jafnframt því sem tilraun hans til þess að koma aftur til starfa sem flugumferðarstjóri á Íslandi í janúar 2005 bar ekki árangur. Allar götur síðan hefur hann verið óvinnufær og var leystur frá störfum sem flugumferðarstjóri í mars 2007 af heilsufarsástæðum.  Samkvæmt mati læknis árið 2007 er varanleg örorka mannsins 65%. 

Ófyrirséð árás

Héraðsdómur segir, að ekkert í málinu bendi til annars en að sprengjuárásin í Kabúl hafi verið ófyrirséð og að hending ein hafi ráðið því að íslensku friðargæsluliðarnir urðu fyrir henni. Í því ljósi verði að hafna, sem órökstuddum, öllum málsástæðum mannsins þess efnis að árásina megi rekja til vanmats á aðstæðum og ófullnægjandi verndar, vanþekkingar og vanþjálfunar hans sjálfs og samstarfsmanna hans.

Þá segir dómurinn, að þótt benda megi á einstök atriði sem kunni að orka tvímælis, m.a. langri viðdvöl í teppaversluninni í Kjúklingastræti, liggi þó engar sannanir fyrir um að þau hafi nokkru ráðið um atburðarásina. Dómurinn leggur áherslu á, að Friðrik hafi farið í hina örlagaríku ferð á eigin forsendum og ábyrgð, og án þess að ferðin væri hluti af starfsskyldum hans. 

Leist ekki vel á aðstæður

Í dómi héraðsdóms er atburðarásin í Kabúl í október 2004 rakin. Þar segir, að þegar  líða tók að brottför Hallgríms Sigurðssonar, flugvallarstjóra, frá Kabúl, hafi hann lýst áhuga á að kaupa handunnið teppi til minningar um dvöl sína í Afganistan. Tyrkneskur samstarfsmaður hans benti honum á teppaverslun í Chicken Street í miðborg Kabúl, og var svo frá gengið að Hallgrímur gæti þar valið úr 40-50 vönduðum teppum, er þar að kæmi.

Hallgrímur bað Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirmann öryggismála á flugvellinum, að gera vettvangskönnun í verslunarhverfinu og leggja mat á öryggi svæðisins. Sú könnun fór fram fimmtudaginn 21. október 2004. Fram kemur að Ásgeiri hafi ekki litist sérstaklega vel á götuna, bæði hafi hún verið þröng tvístefnuakstursgata og þar mikill mannfjöldi. Hafi hann tjáð Hallgrími áhyggjur sínar, en þó ekki lagst gegn leiðangrinum. Hins vegar hafi hann lagt áherslu á að dvölin í versluninni yrði að vera stutt og vörurnar tilbúnar til afhendingar þegar þangað kæmi.

Eftir hádegi laugardaginn 23. október 2004 var lagt af stað í verslunarleiðangurinn. Í dómnum segir, að aðila greini á um hvers vegna Friðrik tók þátt í ferðinni, en auk hans og Hallgríms Sigurðssonar voru með í för Doug Wise, Bandaríkjamaður, og Faruk Kaymakci, sendiráðsritari í tyrkneska sendiráðinu, svo og fjórir íslenskir friðargæsluliðar sem gættu öryggis leiðangursmanna, þeir Ásgeir Þór, Haukur Grönli, Stefán Gunnarsson og Steinar Örn Magnússon.

Farið var á tveimur bifreiðum, merktum alþjóðaöryggissveitunum ISAF. Komið var að teppaversluninni í Chicken Street um kl. 14:15 og var bifreiðunum lagt við verslunina þannig að þær mynduðu box við inngöngudyr hennar, í þeim tilgangi að verja innganginn og takmarka umferð á gangstétt utan við hana. Báðar bifreiðarnar voru hafðar í gangi, þrír friðargæsluliðar gættu öryggis utandyra en einn stóð í dyragættinni. Allir voru Íslendingarnir klæddir skotvestum.

Þegar til kom reyndist verslunareigandinn ekki tilbúinn með þær vörur sem lofað hafði verið. Var því hafist handa um að taka til varninginn, jafnframt því sem gestunum voru færðir svaladrykkir með tilheyrandi spjalli að afgönskum sið. 

Um kl. 15:15 var sprengjuárás gerð með því að þremur handsprengjum var hent að íslensku friðargæsluliðunum. Tvær þeirra munu hafa sprungið á götunni, en sú þriðja upp við verslunina. Í síðustu sprengingunni týndi árasármaðurinn lífi, en einnig fórust 11 ára gömul afgönsk stúlka og bandarísk kona, sem voru í námunda við vettvang. Auk nokkurra Afgana særðust í árásinni íslensku friðargæsluliðarnir þrír, sem stóðu utandyra.

Í kjölfar þessa tók Ásgeir Þór Ásgeirsson ákvörðun um skyndibrottflutning hópsins, og var annarri bifreiðinni ekið rakleiðis á næsta sjúkrahús þar sem gert var að sárum Íslendinganna. Hin bifreiðin var skilin eftir í óökufæru ástandi.

Dómurinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert