Gamla Ísafjarðarkirkjan umflotin vatni

Gamla kirkjan er geymd í Engidal í húsi sem ber …
Gamla kirkjan er geymd í Engidal í húsi sem ber um þessar mundir svip með örkinni hans Nóa. mynd/bb.is

Mikið vatn umlykur nú geymslu sem hýsir Ísafjarðarkirkju hina eldri í Engidal í Skutulsfirði.

„Þessi staður var upphaflega valinn til að geyma kirkjuna í samráði við bæjaryfirvöld og arkitekt Húsafriðunarnefndar. Það hefur þó komið áður fyrir í vorleysingum að áin flæði yfir bakka sína og að geymslunni. Við höfum ekki gert könnun á því hvernig kirkjunni reiðir af en ég held að það sé ljóst að gamalt timbur fer ekki vel út úr svona kringumstæðum“, segir séra Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði við vefinn bb.is.

Eftir að kirkjan brann árið 1987 fóru í hönd miklar bollaleggingar þess efnis hvort endurbyggja ætti kirkjuna eða reisa nýja. Úr varð að ný kirkja var reist á staðnum þar sem hin eldri stóð. Söfnuðinum var þá skylt að taka gömlu kirkjuna niður, spýtu fyrir spýtu, og varðveita hana, annars hefði ekki fengist leyfi fyrir niðurrifi hennar.

Kirkjan var tekin niður árið 1991 og hver spýta var merkt, hvort sem þær voru heilar, fúnar eða brunnar. Því næst var smíðað utan um hana til að varðveita innviði kirkjunnar um ókomin ár. „Ég held að þessi frágangur á sínum tíma sýni að menn hafi verið að uppfylla einhverja kvöð þar sem allir sjá að þetta er nú ekki góð geymsla til lengri tíma“, segir Magnús.

Aðspurður hvort annar geymslustaður komi til greina segist Magnús ekki vita til þess. „Ég sé ekki lausn á þessum vanda sem stendur, þetta er sú lóð sem við fengum og það hefur ekki verið farið í það að finna nýja. Kirkjan er ekki með stóra sjóði og á fullt í fangi með að borga af nýju kirkjunni og halda uppi söfnunarstarfi. Að auki er boðaður er niðurskurður innan kirkjunnar. Það er bara hinn napri sannleikur að við erum með næg verkefni á okkar könnu.“ 

Magnús segist ekki hafa mikla trú að það verði af endurbyggingu kirkjunnar. „Ég tel þetta vera gott dæmi um svona 2007 mál. Það þarf töluverða peninga til þess að byggja kirkjuna svo sómi sé að, því það yrði að gera í upprunalegri mynd. Ég veit ekki hvaðan þeir peningar ættu að koma, því það er ekki eins og peningar liggi mikið á lausu í þjóðfélaginu um þessar mundir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert