Um 12 þúsund án atvinnu

Frá ríkisstjórnarfundinum á Akureyri í dag.
Frá ríkisstjórnarfundinum á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti

Um 12.000 Íslendingar eru nú án nokkurrar atvinnu. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, upplýsti á blaðamannafundi eftir fyrsta fund ríkisstjórnarinnar á Akureyri í dag, að á atvinnuleysisskrá væru 16.750 en um 4.700 þeirra væru í hlutastörfum; í hlutastörfum á móti bótum, í átaksverkefnum ýmis konar, á starfsþjálfunar- og reynsluráðningarsamningum, í nýsköpunarverkefnum eða í námstengdu starfi.

 „Það eru um það bil 4.700 störf sem þessi ríkisstjórn hefur skapað, fyrir fólk sem er þá virkt á vinnumarkaðnum þó það sé ekki í fullu starfi,“ sagði Jóhanna í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði ánægjulegt að vöxtur atvinnuleysis hefði stöðvast og sagði raunar að aðeins hefði fækkað á skrá milli mars og apríl. Skv. þjóðhagsspá sem kynnt var í dag er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði um 9% að meðaltali í ár og, 9,6% að meðaltali á árinu 2010 og lækki niður í 7,5% árið 2011. „Þetta eru auðvitað mjög háar tölur og miklu, miklu hærri en við viljum sjá og erum vön, en þó er hægt að hafa til samanburðar að þetta er svipað eða jafnvel lægra atvinnuleysi en er að finna að meðaltali víða í Evrópu og var þar landlægt, sums staðar, fyrir efnahagshrunið,“ sagði fjármálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert