Kópavogsbær setur sér siðareglur

Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.
Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Kópavogsbær hefur sett sér siðareglur sem gilda um kjörna bæjarfulltrúa og stjórnendur hjá bæjarfélaginu. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti siðareglurnar einróma á fundi sínum í gær. Segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ að bæjarfélagið sé fyrst sveitarfélaga á Íslandi til þess að setja sér slíkar reglur.


Markmiðið með siðareglunum er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til af bæjarfulltrúum og stjórnendum í störfum þeirra fyrir Kópavogsbæ og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Samkvæmt siðareglunum ber þeim m.a. að gæta almannahagsmuna og starfa fyrir opnum tjöldum á málefnalegum forsendum. Þeir mega hvorki hvetja eða aðstoða kjörinn fulltrúa eða starfsmann Kópavogsbæjar við að brjóta reglurnar né beita réttindum eða aðstöðu sem fylgja embætti þeirra í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra. Jafnframt eru ákvæði í siðareglunum um gjafir og fríðindi, hagsmunaárekstra, ábyrgð í fjármálum og þjónustu við almenning.
 
Siðareglur kjörinna bæjarfulltrúa og stjórnenda hjá Kópavogsbæ taka að miklu leyti mið af siðareglum sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins auk Handbókar Evrópusambandsins um siðareglur á sveitarstjórnarstigi. Siðareglur Kópavogsbæjar voru unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
 
Siðareglurnar fela í sér leiðbeiningar um það hvernig æskilegt er að kjörnir bæjarfulltrúar og stjórnendur bregðist við þegar siðferðileg álitamál koma upp í störfum þeirra. Í siðareglunum birtast gildi sem eiga að einkenna samskipti innan stjórnsýslu Kópavogsbæjar og þjónustu sem það veitir.


Sjá nánar á vef Kópavogs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert