Framsóknarmenn vilja ekki flytja

Framsóknarmenn trúa því ekki að þeim verði gert að flytja úr þingflokksherbergi flokksins í Alþingishúsinu en þar hefur þingflokkurinn haft bækistöðvar sínar frá stríðsárunum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins segir að þingmönnum flokksins þyki ágætt að vera í herberginu  og sumir haldi því jafnvel fram að flokkurinn hafi verið stofnaður þar. Þetta hafi alltaf verið framsóknarherbergi.

Sigmundur Davíð segir að á sínum tíma hafa málningarlög verið sköfuð af veggjum herbergisins til að kanna upprunalegan lit og þá hafi komið í ljós að hann hafi verið grænn. Menn hafi því túlkað það sem svo að herbergið hafi alltaf verið ætlað flokknum.

Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis skilur óánægju Framsóknarmanna en segir þetta hinsvegar óhjákvæmilegar breytingar. Þegar talið hafi verið upp úr kjörkössunum hafi Vinstri grænir haft fjórtán þingmenn en það séu bara pláss fyrir níu í herberginu sem þeir hafi til umráða. Þingmenn Framsóknarflokksins séu hinsvegar níu, jafnmargir og þingmenn VG á síðasta kjörtímabili. Á grundvelli þessa hafi verið ákveðið að flokkarnir hefðu herbergjaskipti.

Sigmundur Davíð hefur trú á því að forsætisnefnd Alþingis sjái sig um hönd. Þingflokkurinn hafi stækkað í síðustu kosningum og hann geri ráð fyrir að hann stækki aftur þegar kosið verði næst. Það taki því ekki að vera með miklar tilfæringar fyrir stuttan tíma Hann bendir á að Samfylkingin hafi áður ásælst  þetta herbergi en þurft frá að hverfa..Menn hafi ákveðið að halda í hefðirnar og hann eigi frekar von á því að það verði niðurstaðan í þetta skiptið líka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert