„Kanna hvort einhverjir fletir séu til samstöðu"

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna áttu stuttan fund með forsætisráðherra í gær um …
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna áttu stuttan fund með forsætisráðherra í gær um þingsályktunartillöguna. mbl.is/Golli

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru bundnir trúnaði og gátu því afar takmarkað tjáð sig um þingsályktunartillöguna þegar eftir því var leitað. Bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sögðu þó, að þeir væru afar undrandi.

Orðrétt sagði Bjarni: „Þessi þingsályktunartillaga sem grundvöllur fyrir viðræður við Evrópusambandið kom mér verulega á óvart.“ Sigmundur Davíð bætti við að framsetningin væri allt öðruvísi en hann hefði búist við. Báðir funda þeir – hvor í sínu lagi – með Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, í dag auk Birgittu Jónsdóttur, þingkonu Borgarahreyfingarinnar. Þar hyggst ráðherrann freista þess að ná samstöðu um skref í málinu. Miðað við fyrstu viðbrögð formannanna verður það erfitt.

Á samleið með Framsókn

Össur segist ekki endilega sammála því, alla vega ekki hvað varðar Framsóknarflokkinn og Borgarahreyfinguna. „Staðan er þannig að það er mjög lítill munur á afstöðu minni sem utanríkisráðherra til þess með hvaða hætti á að ganga til aðildarviðræðna og Framsóknarflokksins. Ég er reiðubúinn að hlusta á það hvort forysta flokksins telur ástæðu til að breyta með einhverjum hætti þessari greinargerð.“

Hann bendir jafnframt á að Borgarahreyfingin hafi tjáð sína afstöðu með skýrum hætti og sett fram þrjú skilyrði. „Ég vil gjarnan ræða við þingmenn Borgarahreyfingarinnar um málið því ég tel að það sé ekki erfitt að uppfylla þau skilyrði og ég er þeim í reynd hlynntur.“

Hvað varðar afstöðu Sjálfstæðisflokksins segir Össur að honum sé hún mætavel ljós. „En ég tel það mína skyldu að kanna hvort einhverjir fletir séu til samstöðu. Ég hef hlustað með stakri athygli á þær ræður sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur flutt á Alþingi um Evrópumálin og mér hefur fundist hann bæði skynugur og framsýnn stjórnmálamaður.“

Nægur tími til umræðna

Tillaga stjórnarflokkanna, sem er á ábyrgð utanríkisráðherra, er afdráttarlaus og greinargerðin stutt. Össur hefur skýringar á því. „Það er ekki minn stíll að vera með langar og miklar greinargerðir um mál sem ekki er svo flókið. Það er verið að reyna að ná þannig áfanga að þjóðin geti tekið afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu, með upplýstum hætti, þ.e. með samning fyrir framan sig. Sá samningur verður til synjunar eða samþykktar.“

Össur segir tillöguna verða lagða fyrir Alþingi í næstu viku, en það sé svo þingsins að ákveða hvenær mælt verði fyrir því. Hann segir málið vel undirbúið af hálfu stjórnvalda, hann hafi sjálfur notað allan þann tíma sem gefist hefur síðan ríkisstjórnin var mynduð til að undirbúa það. Einnig telur hann að nægur tími gefist fyrir umræður í sölum Alþingis og innan nefnda, en forsætisráðherra hefur lýst því yfir að stefnan sé að leggja inn umsókn um ESB í júlímánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert