Óbilgjarnt blogg í garð þingmanna

Pétur Blöndal
Pétur Blöndal

„Bloggið er orðið mjög harðvítugt í garð þingmanna og hefur óbilgirni í garð þeirra aukist mjög á síðustu þremur til fjórum árum. Þetta segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
 
„Menn eru taldir  réttdræpir á blogginu og ég er ekki viss um að mörgum finnist gaman að börnin þeirra geti lesið slíkan óhróður um sig.“ Hann hafi íhugað að bjóða sig ekki fram til þingstarfa í þetta sinn vegna þessa. Pétur hefur verið alþingismaður frá árinu 1995.
 
„Það er orðinn allt annar bragur á umræðunni um þingmenn og mér finnst sem menn leyfi  sér að ganga ansi langt í persónulegum árásum og níði. Bloggið bíður upp á  þetta, því þar telja menn sig ábyrgðarlausa.“  Þingmenn kæri sennilegast ekki þar sem árásirnar séu svo margar: „Jafnvel þó maður reyndi að svara eru árásirnar svo miklar að þá gerði maður vart annað. Hvert svar kallar einnig á enn meiri óhróður.“ 
 
Pétur fullyrðir jafnframt að sumir sem hafi áhuga á þingstörfum bjóða sig ekki fram þar sem þeir lækki mikið í launum. Hann bendir á að enginn læknir eigi til dæmis sæti á Alþingi. „Það eru ekki allir sem hafa efni á því  að sitja á Alþingi,“ segir Pétur og nefnir sérstaklega langskólagengið
fólk sem hafi há námslán á bakinu. Hvorki sé greitt fyrir menntun né reynslu.
  
Pétur bendir á að kostnaðarsamt geti verið að tryggja sér sæti á þingi. Sjálfur hafi hann sett sjö til átta milljónir í gegnum tíðina í prófkjörsbaráttu fyrir sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi greitt  kostnaðinn úr eigin vasa, fyrir utan að hafa einu sinni þegið styrk
frá manni sem vildi greiða fyrir útgáfu bæklings. „Og ég leyfði honum það.“ Þannig  hafi  hann, sem aðrir sem greiði úr eigin vasa, starfað í raun launalaust á þinginu svo mánuðum skipti. „Þetta  fælir  menn  frá alþingisstörfum.“ Þá sé mun kostnaðarsamara fyrir fólk sem ekki sé vel þekkt að bjóða sig fram.
 
„Nú er það þannig að ég hef haft efni á því að vera á þingi. Ég er ekki viss  um  að  menn vilji hafa það þannig að aðeins  þeir sem það geti fjárhagslega setjist á þing," segir Pétur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert