Rökstuðninginn skortir ekki

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mbl.is/RAX

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vísar þeirri gagnrýni á bug að í tillögu stjórnarflokkanna að næstu skrefum í Evrópumálum skorti rökstuðning fyrir aðild.

En í tillögunni segir að Alþingi samþykki „að ríkistjórnin leggi inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning“.

Hann er jafnframt ósammála þeirri gagnrýni Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að í ljósi þeirrar gjár sem sé á milli stjórnarflokkanna í ESB-málinu sé ekki tímabært að hefja samráð við stjórnarandstöðuna um málið.

„Bjarni má hafa allar þær skoðanir sem að hann vill. Ég átti góðan og jákvæðan fund með honum í dag um þessi mál. Um þessi ummæli hans hef ég ekkert sérstakt að segja nema að þau eru ekki í samræmi við þann veruleika sem að ég lifi í,“ segir Össur og heldur áfram.

„Það er fullur einurð um það af hálfu ríkisstjórnarflokkanna eins og sést á tillögugreininni sem ég birti á heimasíðu utanríkisráðuneytisins í dag að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja þá niðurstöðu í formi aðildarsamnings fyrir þjóðina í beinni og milliliðalausri atkvæðagreiðslu. Skýrara er ekki hægt að kveða að orði. Þetta er þess vegna ekki í samræmi við staðreyndir máls.“

Rökstuðninginn skortir ekki

 - Hvað með það sjónarmið að í tillöguna skorti rökstuðning fyrir umsókn um aðild að ESB?

„Ég tel að í þessari tillögu komi algjörlega skýrt fram sú afstaða að það beri að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það liggur í hlutarins eðli vegna þess að menn telja að eftir töluverðu sé að slægjast. Á hinn bóginn þá er alveg ljóst að það eru ákveðnir íslenskir hagsmunir sem þarf að verja. Það kemur skýrt fram í greinargerð um þingsályktunartillöguna að um þau verður staðin varðstaða.

Það er svo í gadda slegið að það er farin sú leið að stjórnvöld áskilja sér rétt til þess að mæla með eða leggjast gegn samningnum eftir því hvernig tekst til með þá varðstöðu. Meginflöggin sem að skotið er upp í því efni eru rakin í greinargerðinni.

Það er alveg ljóst að í þessa greinargerð skortir ekkert sem að þarf til þess að það sé hægt að sækja um. Við erum að þessu til þess að leggja þetta fyrir þingið með þessum hætti og skapa farveg til þess að þjóðin geti að lokum með upplýstum hætti tekið afstöðu til niðurstöðu í formi viðræðna. Við hins vegar höfum lýst því yfir að við viljum hafa eins víðtækt samráð og hægt er og það verður þingið sem að fjallar um þetta og eftir ástæðum mælir með því eða ekki að tillagan verði samþykkt.

Þar munu að sjálfsögðu öll rökin koma fram, rökin fyrir þessu verða auðvitað borin fram af þeim sem að mælir fyrir málinu þegar að því kemur. Við förum þá leið að hafa þetta mjög skýrt og einfalt. Við vitum það að það eru margvíslegar ástæður, mjög margar, fyrir því að menn telja að það eigi að sækja um aðild.

Margar þessar ástæður eru umdeildar líka, það er að segja að menn eru ekki á eitt sáttir um það. Menn eru hins vegar sáttir um það að fara þessa leið til þess að gefa þjóðinni kost á að taka þessa lýðræðislegu afstöðu. Enginn hefur mælt jafn sterklega með þeim ávinningi sem að felst í því að fara þessa leið eins og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann hefur rakið það mjög ítarlega í merkum greinum sem hann hefur ritað ásamt núverandi formanni þingflokks sjálfstæðismanna. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að fara þá leið sem að ríkisstjórnin er að leggja til í þessari tillögu. Þeir hafa sagt að það sé í samræmi við sterkar lýðræðishefðir Sjálfstæðisflokksins að leggja niðurstöðu í formi aðildarsamnings fyrir þjóðina. Þetta hafa þeir sagt.

Ég tel og það var líka hluti af mínu samráði við þá ágætu stjórnmálaleiðtoga sem ég talaði við í dag að bjóða þeim upp á samráð sem felst til dæmis í því að þeir geta, ef þeir vilja, og telja að tillögunum sé í einhverju áfátt, að þá geta þeir komið með og leitað eftir því að það verði hluti af tillögunum.

Þannig að Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum stendur til boða að bæta greinargerðinna með tillögunni ef þeir vilja, ef að þeir telja að það sé það sem þarf. Ríkisstjórnin telur ekki að það vanti neitt inn í þessa greinargerð en hún hlustar og stjórnarandstöðuflokkunum öllum þremur er boðið upp á það að koma með það sem þeir telja áfátt í rökstuðningi.

Ber mismikið í milli

- Hvernig gengu fundir þínir með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í morgun?

„Þessir fundir voru mjög jákvæðir og gagnlegir. Niðurstaða mín í lok dags er sú að það ber lítið í milli þeirrar samþykktar sem landsfundur Framsóknarflokksins samþykkti á sínum tíma og þessarar tillögu eins og hún er framsett og efni greinargerðarinnar.

Alveg ljóst er hins vegar er að það er stærri vík á milli tillögudraganna og afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Það eru ákveðnar forsendur fyrir stuðningi Borgarahreyfingarinnar sem að ég í reynd hef fallist á og er sammála. Þannig að þegar upp er staðið að loknum þessum þremur fundum erég bjartsýnni á að það náist að lokum meiri samstaða en margir töldu þegar lagt var af stað í ferðalagið áður heldur en þingi sleppir.

Það sem að skiptir mjög miklu máli á þessum upphafspunkti er að gera sér líka grein fyrir endataflinu. Það er að segja að þegar þetta mál er að renna til lykta í viðræðum okkar við Evrópusambandið og þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á í samtölum mínum í dag að hvernig sem verkast á Alþingi núna í sumar að þá ég vil ég að það verði hægt að ná eins miklum trúnaði um þetta mál og útbreiddri samstöðu, bæði í samfélaginu, og þess vegna tel ég að það eigi að leita eftir sterku samráði við alla hagsmunaaðila sem að málið varðar með einhverjum hætti og sömuleiðis að það þurfi að tryggja það að jafnvel þótt menn hafi lagt ófúsir upp í þetta ferðalag innan þings að þá muni þeir eigi að síður þegar þingi sleppir taka þátt á málefnalegum forsendum í því samráði sem verður þá á næstu misserum. Ég er sannfærður um að málið fær framgang á þinginu.

Ég tel semsagt að málið sé svo mikilvægt að menn eigi ekki að falla í flokkspólitískar skotgrafir gamalkunnugs karps heldur eigi menn jafnvel þótt þeir séu ekki sáttir við lyktir málsins á þinginu að taka þátt í því að vega og meta ferlið allt eftir því sem því vindur fram á málefnalegum forsendum. Það er mín ósk að jafnvel þó það kunni að fara svo að Sjálfstæðisflokkurinn, sem að ég virði sem stjórnmálahreyfingu, og veit að er öflug, sé ekki sáttur við hvernig málinu kann að lykta á Alþingi að þá muni hann eigi að síður taka þátt í því að móta framvinduna.

Í greinargerð með tillögunni er talað um Evrópunefnd og í samtölum við stjórnarandstöðuleiðtoganna í dag var vel tekið í þá hugmynd tekið og þingið væntanlega tekur afstöðu til þess með hvaða hætti það samráð verður haft við nefndina eftir því sem þessu máli vindur fram,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert