Gagnrýnir hugmyndir um sykurskatt

Neytendasamtökin lýsa andstöðu við hugmyndir heilbrigðisráðherra um sérstakan sykurskatt til að hamla  gegn tannskemmdum barna og unglinga.

Á heimasíðu Neytendasamtakanna er vísað til ályktunar frá árinu 2004 þegar hugmyndir um sykurskatt voru einnig til umræðu.  Þar kom fram að beita þurfi öðrum aðgerðum vegna mikillar sykurneyslu, m.a. fyrirbyggjandi fræðslu í skólum. Sérstök skattlagning sé hins vegar  neyslustýring og leiði til aukinna útgjalda heimilanna.

Neytendasamtökin segja að einnig hafi komið fram í fjölmiðlum að til athugunar sé að hækka opinber gjöld á eldsneyti, áfengi og tóbaki en slík gjöld voru síðast hækkuð 12. desember.

„Ástæða er til að minna á að gjöld af þessu tagi (óbeinir skattar) fara beint út í verðlagið og hafa þar með áhrif á verðtryggð lán, hækka höfuðstólinn og auka greiðslubyrði þeirra. Neytendasamtökin lýsa andstöðu sinni við slíkri skattlagningu," segir á heimasíðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert