Megum ekki blekkja okkur í sparnaðaraðgerðum

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason.

„Atvinnuleysistryggingasjóður á fáa vini núna og það er mikilvægt að standa vörð um hann, “ segir Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra. Árni lagði það til á ríkisstjórnarfundi í morgun að opinberar stofnanir og fyrirtæki hugi sérstaklega að áhrifum sparnar þeirra á Atvinnuleysistryggingasjóð.

Samþykkt var með lagabreytingu á síðasta ári að greiða mætti fólki hlutfallslegar atvinnuleysisbætur þegar það missir starf sitt að hluta, m.a. til að stuðla að því að fyrirtæki og stofnanir gætu minnkað starfshlutfall fólks án þess að þurfa að segja því alfarið upp. Árni Páll segir þetta vissulega mikilvægan lið í því að halda sem flestum á vinnumarkaði þótt í skertu starfshlutfalli sé.

„Hinsvegar vildi ég vekja athygli á því að þegar opinberar stofnanir grípa til þessa til að bregðast við rekstrarvanda, þá þarf að gæta að því að verið er að flytja til ríkisútgjöld,“ sagði Árni Páll í samtali við Mbl.is eftir fundinn.  „Þannig að ef gerð er sparnaðarkrafa á embætti um ákveðnar fjárhæðir þá er embættið ekki að uppfylla það sem fyrir það er lagt ef það nýtir sér alfarið þetta úrræði. Það er að auka tilkostnað annars staðar í ríkiskerfinu. Það er fyrirsjáanlegt að útgjöld Atvinnuleysistryggingarsjóðs aukis mjög mikið núna, hann fer örugglega í mínus og það mikinn mínus. Við verðum að gæta þess að blekkja okkur ekki með þeim aðgerðum sem farið er í og tryggja að raunverulegur sparnaður náist.“

Árni Páll lagði því til að þegar stofnanir gerðu tillögur um sparnað tilgreindu þær sérstaklega þegar aðgerðirnar fælu í sér fækkun starfa og/eða skert starfshlutfall til þess að unnt væri að meta raunsparnað í ríkisútgjöldum við þær aðgerðir. Tillagan var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun. 

„Við setjum sem ríkisstjórn það viðmið að tilflutningur ríkisútgjalda frá rekstrarráðuneytum yfir til velferðarráðuneyta sé ekki ásættanleg lausn. Aukning velferðarútgjalda er ekki leiðin, heldur hlýtur raunverulegur sparnaður að vera það sem gera þarf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert