Tekinn á 194 km hraða

mbl.is/Júlíus

Lögreglan á Selfossi stöðvaði í gærkvöld ökumann sem ók vestur Hellisheiði á 194 km hraða. Ökumaður sem taldi sig vera undir áhrifum fíkniefna ók til lögreglustöðvarinnar í gærkvöld og bað um að málið yrði kannað og svo reyndist vera.

Ökumaðurinn sem ók á 194 km hraða var leiddur fyrir varðstjóra og var hann sviptur ökuréttindum. Lögreglan á Selfossi stöðvaði einnig tvo aðra ökumenn vegna hraðaksturs í gærkvöld og nótt. Annar ók eftir Hellisheiði á 130 km hraða en hinn eftir Eyrarbakkavegi á 132 km hraða. 

Fjórir voru kærðir fyrir að vera á nagladekkjum og eiga þeir von á því að þurfa að greiða 5 þúsund króna sekt á dekk, að sögn lögreglunnar sem tók það fram að allir hlytu að vera sammála um að það væri komið sumar og sól.

Lögreglan stöðvaði einnig í gærkvöld ökumann vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert