Tímabært að njóta velgengni

Selma Björnsdóttir sló í gegn árið 1999 með All out …
Selma Björnsdóttir sló í gegn árið 1999 með All out of luck. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Hún stóð sig stórkostlega vel, aðeins átján ára og með bestu söngvurunum í keppninni. Atriðið var ótrúlega fallegt og draumkennt og mér fannst það koma best út í allri myndvinnslu og útliti. Maður fylltist þvílíku stolti,“ segir Selma Björnsdóttir, sem er eini íslenski Evróvisjónkeppandinn sem hefur náð sama árangri og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir náði í keppninni í gærkvöld.

Tíu ár eru liðin frá því að Selma stóð á sviðinu í Ísrael og keppti þar með lagi Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of luck og náði þar með allra besta árangri íslensku Evróvisjónsögunnar til þess tíma, öðru sæti með 146 stig. Þá var það hin sænska Charlotte Nilsson sem fékk 163 stig fyrir flutning sinn á laginu Take Me To Your Heaven.

Selma segir sætið nú vissulega það sama en mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum áratug sem liðinn er. „Þetta er á öðrum forsendum því landslagið er allt öðruvísi. Árið 1999 voru engar forkeppnir, enda keppnislöndin aðeins 23 talsins í stað 42 þjóða nú. Þetta er allt önnur keppni í dag.“

Að sama skapi var spennan um fyrsta sætið öllu meiri fyrir tíu árum þegar Ísland blandaði sér raunverulega í baráttuna um það. Selma viðurkennir þó að stemningin þá hafi óneitanlega rifjast upp fyrir henni í gærkvöld, þar sem hún fylgdist með keppninni ásamt vinum og vandamönnum, sem mættu til hennar í matarboð og Evróvisjónpartý. „Þetta rifjast upp á hverju ári og maður fyllist samkennd rétt áður en Ísland fer á svið. Eins finnur maður fiðringinn og spenninginn í stigatalningunni á hverju einasta ári. Auðvitað var dálítið fúlt að eiga ekkert í Nossarann en það var ekkert við því að gera, hann sló þarna öll met, fékk 16 tólfur, sem hefur aldrei áður gerst.“

Selma segir aðspurð að sennilega muni það taka Jóhönnu nokkurn tíma að ná áttum eftir keppnina. „Þetta er rosaleg törn og mikil rússibanareið, sérstaklega þegar manni er spáð ofarlega í sæti. Þá þarf að reyna að halda sér niðri við jörðina því maður veit að oft ganga þessar spár ekkert eftir. Sennilega er Jóhanna bara þreytt núna enda ennþá í flugi. Næstu daga á þetta eftir að síast betur inn og hún fær að njóta þess meira.“

En var þetta ekki bara besta útkoman fyrir okkur, eins og staða þjóðarinnar er m.t.t. þess kostnaðar sem hefði hlotist af því að sigra? „Það hefði nú samt verið gaman fyrir okkur – einmitt í þessu ástandi núna – að fá að halda keppnina,“ andmælir Selma. „Við hefðum alveg mátt við landkynningu á jákvæðum forsendum þótt buddan kannski leyfi það ekki. Hins vegar var orðið tímabært að njóta loksins velgengni í Evróvisjón því við erum búin að bíða í tíu ár eftir þessu. Við getum því fagnað því að eiga aftur von í keppninni.“

Selma segir keppnina allt aðra nú en fyrir tíu árum.
Selma segir keppnina allt aðra nú en fyrir tíu árum. HO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert