Íslendingar leiði mótun sjávarútvegsstefnu ESB

Jóhanna Sigurðardóttir flytur stefnuræðu sína.
Jóhanna Sigurðardóttir flytur stefnuræðu sína. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld að hennar framtíðarsýn sé sú,  að Ísland verði leiðandi í mótun og stjórn sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og leiðandi í sjávarútvegi í Evrópu.

„Ég hef fulla trú á að það takist," sagði Jóhanna. „Við getum sótt fram og byggt upp innan Evrópusambandsins."

Hún sagði að enginn geti sagt til um hver verði niðurstaða samningaviðræðna við Evrópusambandið um sjávarútveg „en ég fullyrði að samningsstaða Íslands er sterk. Hún er meðal annars sterk vegna þeirrar framsýni og þess hugrekkis sem íslenska þjóðin sýndi þegar landhelgin var færð út í áföngum í 200 sjómílur."

Þá sagði Jóhanna óumdeilt, að íslenskur landbúnaður myndi eiga aðgang að umfangsmiklu styrkjakerfi Evrópusambandsins og fyrir liggi, að íslensk stjórnvöld myndu leggja landbúnaðinum til fjármuni á móti slíkum styrkjum.

„Fyrirsjáanlegt er að Ísland þurfi innan fárra ára að aðlaga styrkjakerfi fyrir íslenskan landbúnað, vegna breyttra reglna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, óháð því hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki. Færa má rök fyrir því að Evrópusambandið geti veitt íslenskum landbúnaði ákveðið skjól, ekki síst vegna þess að Evrópusambandið er leiðandi í mótun reglna um landbúnað í Alþjóðaviðskiptastofnuninni og annars staðar á alþjóðlegum vettvangi," sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna lagði einnig áherslu á, að Evrópusambandsaðild merki ekki afsal auðlinda, hvorki í sjávarútvegi, í orkumálum eða í landbúnaði.  Þess vegna muni Evrópusambandsaðild ekki hafa áhrif á eignarhald á fiski í sjó, á endurnýtanlegum orkuauðlindum eða olíu á landgrunninu.

Stefnuræða forsætisráðherra 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert