Tónlistarhúsið yrði 650 milljónum dýrara

Tónlistarhúsið
Tónlistarhúsið mbl.is/Rax

Haldist gengi krónunnar viðlíka veikt og það er nú á framkvæmdatíma Tónlistarhússins, verður húsið um 650 milljónum króna dýrara en áætlað var þegar ríki og borg tóku verkefnið yfir fyrr á þessu ári. Bæði Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið gera ráð fyrir lítilli styrkingu krónunnar næstu þrjú árin.

Ríkisendurskoðun sagði í minnisblaði til fjárlaganefndar Alþingis í mars s.l. að stærsta áhættan af yfirtöku verkefnisins væri sú að kostnaður færi fram úr áætlun. Hvað sem liði lagalegum skyldum væri ljóst að viðbótarkostnaður myndi falla á ríki og borg ætti að ljúka við smíðina og taka húsið í notkun.

Árlegt framlag ríkis og borgar upp á 808 milljónir er vísitölutryggt og reiknar Austurhöfn-TR, sem hefur umsjón með verkinu, með að um helmingur af gengistapinu við smíðina skili sér með þeirri hækkun vísitölunnar sem hlýst af veiku gengi. Spara yrði fyrir hinum helmingnum, s.s. með því að ljúka ekki strax við tiltekin rými í húsinu.

Vegna veiks gengis krónunnar gæti Tónlistar- og ráðstefnuhúsið alls kostað um 25,2 milljarða króna. Þegar ríki og borg undirrituðu samkomulag um að ráðast í byggingu hússins árið 2002 var tilkynnt að áætlað væri að húsið myndi kosta sex milljarða. Framreiknuð, miðað við byggingavísitölu í október 2008, nemur sú fjárhæð 10 milljörðum króna.

Portus, sem samdi við ríki og borg um að byggja húsið, var búinn að leggja um 10 milljarða í bygginguna þegar fyrirtækið þraut örendi í vetur. Ríki og borg tóku þá húsið yfir á vægu verði og það er athyglisvert að rekstraráætlun Austurhafnar miðast við að rekstur hússins standi undir þeim 14,5 milljörðum sem kostar að ljúka við húsið en ekki þeim 24,5-25,2 milljörðum sem húsið kostar í heild sinni. Þannig er reksturinn talinn standa undir sér.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert