DV braut ekki siðareglur

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að DV hafi ekki brotið siðareglur félagsins í fréttaflutningi af bjór, sem smyglað var til landsins í gámum frá BYKO.

Þeir Jón Helgi Guðmundsson, stjórnarformaður BYKO og Sigurður E. Ragnarsson, forstjóri, kærðu m.a. DV og Inga F. Vilhjálmsson, blaðamann, fyrir fyrirsagnirnar: BYKO mútaði pípurum með bjór og meðfylgjandi myndbirtingu af Jóni Helga, umfjöllun í sama blaði undir fyrirsögninni: Viðskiptavinum BYKO mútað með smyglbjór, og umfjöllun undir fyrirsögninni: Fullyrt að forstjóri hafi vitað af smygli.

Siðanefndin segir, að í umræddum fréttum sé óneitanlega lögð talsverð áhersla á að fjalla um forstjóra og þó sérstaklega um aðaleiganda og stjórnarformann BYKO, þrátt fyrir að talsmaður tollstjóraembættisins segi að þeir liggi ekki undir grun í málinu og sá sem grunaður sé um smyglið segi að þeir hafi ekki vitað um það. Það atriði sé reyndar undirstrikað í fréttunum með tilvitunun í bæði forstjóra og stjórnarformann.

Í ljósi þess að meint smygl og dreifing þess virðist tengjast fyrirtækinu á margvíslegan hátt segist siðanefnd hins vegar telja, að eðlilega veki það sérstaka athygli og skiljanlegt að umfjöllunin beinist að því atriði. Myndir af fyrirtækinu og þeim manni, sem telist vera andlit þess séu hluti af slíkri umfjöllun.

Siðanefndin segir þó að ýmsar myndbirtingar með fréttunum séu vafasamar og einnig sé á mörkunum að nota fyrirsögnina „Fullyrt að forstjóri hafi vitað af smygli“. Þetta sé alvarleg ásökun sem byggð sé á ónafngreindum heimildarmanni. Þegar enginn nafngreindur viðmælandi sé ábyrgur fyrir ummælum hljóti blaðamaður og/eða ritstjóri að bera ábyrgð á þeim. Blaðamaðurinn segist hafa haft fleiri en einn heimildarmann fyrir innihaldi fyrirsagnarinnar, en engu að síður sé þarna teflt á tæpasta vað.

„Samkvæmt fréttum DV er sitthvað á reiki í málinu og því telur siðanefnd að í ofangreindum atriðum hefði að ósekju mátt fara varlegar varðandi framsetningu fréttanna en gert var. Þó telur siðanefnd ekki að um brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands hafi verið að ræða," segir í niðurlagi úrskurðarins.

Úrskurður siðanefndar BÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert