Stöðugleikasáttmáli í smíðum

Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Gylfi …
Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ að loknum fundi í Karphúsinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsti fundur ríkisstjórnarinnar með fulltrúum á vinnumarkaði um svokallaðan stöðugleikasáttmála var haldinn í Karphúsinu í dag. Stefnt er að því að búið verði að ná niðurstöðu varðandi launaliðinn fyrir lok þessa mánaðar og að drög að sáttmálanum í heild liggi fyrir 9. júní.

Á fundinn mættu fulltrúar Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, bankamenn, fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, ríkisins og sveitarfélaga auk þess sem forsætisráðherra var á fundinum. „Þarna var verið að setja í gang vinnu við endurskoðun og gerð kjarasamninga," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. „Nú er komin ný ríkisstjórn með nýtt umboð svo okkur er ekkert að vanbúnaði. Raunar vorum við búnir að undirbúa þetta fyrir kosningarnar á vinnumarkaðinum og höfðum lagt upp með ákveðna sýn á hvernig einhvers konar sáttmáli um stöðugleika gæti litið út. Það er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnin gerði þessi atriði að sínum í stjórnarsáttmálanum og mætti síðan til fundar við okkar í dag til að skipuleggja vinnulagið framundan. Vissulega munum við ræða við atvinnurekendur um launaliðinn en það eru ýmis atriði sem varða ríkisfjármál, velferðarkerfið og efnahags- og atvinnumál sem þarf að leiða til lykta samhliða þessu."

Gylfi segir fundinn hafa að mörgu leyti verið ágætur. Aðallega hafi þó verið rætt um skipulag viðræðnanna framundan, en þó hafi verið drepið á ákveðnum málum. Þannig hafi atvinnurekendur viljað sjá breytingar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál. „Hins vegar er engin launung á að það eru miklar væntingar í mínu baklandi, sérstaklega hjá sjómönnum og fiskverkafólki, um að það sé hægt að fara í einhverja endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni. Og það vilja menn ekki fara að stoppa af hér í upphafi og telja útgerðamenn fara að einhverju leyti offari í þessari umræðu." Hann bætir því við að í stjórnarsáttmálanum sé gert ráð fyrir að hagsmunaaðilar komið að vinnu við endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. „Okkur finnst að með þessu sé verið að setja það mál í einhvern farveg sem við höfum áhyggjur af."

Hvað varðar viðræðurnar framundan segir Gylfi gert ráð fyrir daglegum fundum, a.m.k. það sem eftir lifir mánaðarins. „Við setjum okkur mjög stíft fundaprógramm og ætlum að freista þess að ná niðurstöðu varðandi launaliðinn fyrir lok þessa mánaðar. Síðan yrði komið samkomulag á breiðum grunni fyrir 9. júní, sem væri þá hægt að taka afstöðu til. Og mér þykir líklegt að hjá okkur verði farið í atkvæðagreiðslu meðal okkar félagsmanna um þessa afurð því við teljum þetta það afdrifaríkan sáttmála."

Næsti fundur samningsaðila verður í fyrramálið kl. 8:30

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert