Altarisbrík ekki úr landi

Möðruvallakirkja í Eyjafirði
Möðruvallakirkja í Eyjafirði mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Safnaráð hefur stöðvað um stundarsakir útflutning á altarisbrík úr Möðruvallakirkju í Eyjafirði og skotið málinu til menntamálaráðuneytisins. Eigandi kirkjunnar hefur fengið fyrirspurn frá enska uppboðshúsinu Christies og fulltrúar þess telja að gott verð ætti að fást. Fornleifavernd ríkisins undirbýr nú friðlýsingu muna kirkjunnar en kirkjan sjálf nýtur verndar. Safnafólk telur bríkina óbætanlegan þjóðardýrgrip.

Möðruvallakirkja er inni í Eyjafirði, í gamla Saurbæjarhreppi. Kirkjan er frá 1848, í eigu jarðareiganda en ekki safnaðar, svokölluð bændakirkja. Í kirkjunni eru enn fágætir gripir frá fyrri öldum sem öðru fremur setja svip sinn á hana, eins og lýst er í 10. bindi Kirkna Íslands. Höfuðprýði kirkjunnar er altaristaflan, alabastursbrík frá seinni hluta fimmtándu aldar.

Bannað er með lögum að flytja úr landi forngripi nema með leyfi safnaráðs. Eigandi jarðarinnar hefur óskað eftir slíku leyfi. Í erindi lögmanns hans kemur fram að ógjörlegt hafi reynst að selja kirkjuna með öllum innanstokksmunum. Hvorki sveitarfélag, söfnuður né stofnanir ríkisins hafi sýnt því áhuga. Hins vegar hafi borist fyrirspurn frá Christies-uppboðshúsinu í London og það sé reiðubúið að annast sölu bríkurinnar erlendis, annaðhvort í beinni sölu eða á uppboði. Þeir séu tilbúnir að senda hingað sérfræðing til að meta töfluna og hafi tekið fram að þeir telji að gott verð ætti að fást því hún virðist vera í þokkalegu ástandi.

Þess er getið að altaristaflan hafi hangið á vegg Möðruvallakirkju og þar hafi enginn sýnt henni áhuga. Virðist hún þjóna litlum tilgangi á þeim stað. „Víst er að í heimalandi sínu mundi altaristaflan njóta þeirrar virðingar og umönnunar sem hún á skilið. Hér er í raun aðeins verið að skila menningarverðmætum til síns heimalands, eins og átt hefur sér stað með íslenskar minjar sem grannþjóðir okkar hafa skilað til okkar,“ segir í bréfi lögmanns eigandans, Jósefs Guðbjarts Kristjánsson, sem ekki vildi tjá sig um málið í gær.

Altarisbríkin.
Altarisbríkin.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert