Fótalaus en kom gangandi heim

Margir eru sárir eftir átökin sem urðu á Gaza-svæðinu í …
Margir eru sárir eftir átökin sem urðu á Gaza-svæðinu í vetur. AP

Hópur Íslendinga, sem þessa daga er staddur í Palestínu í þeim tilgangi að gefa gervilimi, setti í dag gervifætur undir ungan palestínskan mann sem missti báða fætur sína. Hann er núna farinn að ganga.

Maður heitir Hosni Talal og er 25 ára. Hann hafði verið einfættur í 4 ár þar til hann missti seinni fótinn við árás skriðdreka nú í janúar 2009. Össur og þeir gervilimasmiðir sem með honum eru hófust strax handa og eftir einn og hálfan tíma voru tilbúnir tveir gervilimir á Hosni og hann kominn á fætur eftir tvær klukkustundir og byrjaður að þjálfa sig.

Sjúkraþjálfari var kallaður á staðinn til aðstoðar. Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína, segir að Hosni hafi tárast af gleði þegar verkinu var lokið. "Þakklætið fyrir þetta framlag er svo mikið að okkur var hiklaust boðið að fylgja honum heim og til veislu. Öll fjölskyldan og nágrannar voru samankomnir og furðulostnir þegar þeir sáu Hosni koma gangandi í göngugrind heim til sín. Í raun var algjör tilviljun að Hosni Talal fékk gervifætur í dag því að hann hefur verið á biðlista og átti ekki að fá afgreiðslu fyrr en eftir heilt ár. Hann kom óvænt við á stofunni í dag til þess að spyrjast fyrir en kom út gangandi."

Sveinn Rúnar segir að ferðin hafi gengið vel og haldið verði áfram að gefa gervilimi næstu daga. Áformað er að gefa tíu einstaklingum nýja fætur á morgun. Hann segir að mikil eyðilegging blasi við öllum sem komi til Gaza. Fátækt sé mikil en það sé ótrúlegt að sjá hve íbúar Gaza séu jákvæðir og hvernig þeir reyna að lifa sínu eðlilega lífi þrátt fyrir hræðilegar aðstæður.

Í hópnum sem er í ferðinni til Gaza eru þrír stoðtækjasmiðir, Össur Kristinsson, Johan Snyder (frá S-Afríku) og Óskar Þór Lárusson. Hjálmtýr Heiðdal og Ingvar Ágúst Þórisson heimildakvikmyndagerðarmenn eru einnig með í för, svo og Sigrún Þorgeirsdóttir verkefnisstjóri, Kristín Sveinsdóttir ritari og Sveinn Rúnar Hauksson læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert