Slæm staða hjá Grundarfjarðarbæ

Fjármagnskostnaður fer illa með fjárhag bæjarsjóðs Grundarfjarðar.
Fjármagnskostnaður fer illa með fjárhag bæjarsjóðs Grundarfjarðar. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Fjármagnsútgjöld Grundarfjarðarbæjar námu 450 milljónum á síðasta ári. Bæjarsjóður var gerður upp með tæplega 400 milljóna halli og var eigið fé bæjarins neikvætt um 170 milljónir.

"Niðurstaða ársreikninga Grundarfjarðarbæjar er skelfileg," segir í bókun L-listans sem er í minnihluta í bæjarstjórn Grundarfjarðar. "Þó vissulega megi skýra margt með áhrifum efnahagshrunsins á fjármagnsliði  verður ekki litið framhjá því að megin orsök þeirrar slæmu stöðu sem blasir við, er óábyrg fjármálastjórnun undanfarin ár. Óraunhæfar fjárhagsáætlanir, lítil eftirfylgni, illa ígrundaðar forgangsraðanir og stóraukin skuldastaða eru rót vandans. L-listin hefur ítrekað varað við þeirri stefnu sem meirihluti Sjálfstæðisflokks hefur fylgt meðal annars við afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæði  fyrir árin 2007 og 2008."

D-listi hafnar yfirlýsingum L-lista um ársreikninginn. Í bókun sjálfstæðismanna í bæjarstjórn segir: "Grundarfjarðarbær hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu á undanförnum árum, stækkun leikskólans, nýrri sorpstöð, nýrri smíðastofu, miklum gatnaframkvæmdum, uppbyggingu hafnarinnar og útivistarsvæða. Klofningur í bæjarstjórn á árinu 2005 leiddi af sér mikinn hallarekstur á árinu 2006 sem verið er að ná tökum á. Ofan í það hafa komið áföll sem eru minnkun þorskveiðikvótans sem hafði alvarleg áhrif á okkar bæjarfélag sem ríkisvaldið mætti ekki. Hér kemur einnig til fækkun bæjarbúa. Stór hluti af fjármagnskostnaði ársins er vegna lána í erlendri mynt sem allir bæjarfulltrúar samþykktu. Við bæjarstjórn blasir stórt verkefni sem D-listinn mun taka á af festu og einurð."

Eftir efnahagshrunið gerðu meiri- og minnihluti í bæjarstjórn með sér samkomulag um aðgerðaráætlun til að bregðast við erfiðleikunum. Minnihlutinn hefur nú slitið þessu samstarfi á þeirri forsendu að meirihlutinn hafi farið út í ný verkefni sem sé brot á samkomulaginu. Í bókun D-listans er þessu vísað á bug. Tillagan sem hafi valdið sinnaskiptum L-listans sé könnun sem ákveðið hafi verið að fara út um áhuga einkaaðila á að setja upp líkamsræktarstöð í húsnæði bæjarfélagsins. Þetta hafi engar fjárskuldbindingar í för með sér fyrir bæjarsjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert