Talið tengjast rannsókn hjá SAF

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið mbl.is/Golli

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins gerði húsleit hjá nokkrum hótelum síðastliðinn miðvikudag. Þeir komu meðal annars á skrifstofu framkvæmdastjóra Icelandair Hotels og sóttu þangað tölvugögn og eins á Hótel Ísland.

Talið er að húsleitin sé í tengslum við rannsókn á mögulegum samkeppnisbrotum í ferðaþjónustu sem hófst 2007.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, sagði að stafsmenn Samkeppnisstofnunar hafi mætt á skrifstofu sína kl. 9.10 um morguninn og tekið tölvugögn. Þeir fóru ekki í gögn eða tölvur annarra starfsmanna fyrirtækisins.

„Þeir komu bara inn til mín og tóku gögn hjá mér,“ sagði Magnea í samtali við mbl.is. Hún sagði að mennirnir hafi ekki staldrað lengi við og sagðist ekki hafa hugmynd um hvers vegna húsleitin var gerð.

„Ég veit ekkert meira um þetta. Þeir segja ekkert en hafa þennan rétt að fara inn,“ sagði Magnea. Hún sagðist ekki vita um tilefni húsleitarinnar en fólk geti velt því fyrir sér hvort hún tengist húsleit sem var gerð hjá Samtökum ferðaþjónustunnar í mars 2007.

„Við höfum ekki hugmynd um það og maður fær engar upplýsingar. Alla vega ekki eins og er. Þeir kannski láta mann vita einhvern tíma af því,“ sagði Magnea.

„Við höfum ekkert að fela og höfum ekki farið á svig við nein lög. Við vitum í raun ekki af hverju þeir komu en getum ímyndað okkur að þetta sé út af þessu eldgamla máli,“ sagði Magnea. „Við látum þetta ekkert trufla okkar starfsemi.“

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Hótels Sögu, sagði að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafi komið og fengið gögn á Hótel Íslandi. Hótel Saga og Hótel Ísland eru rekin undir sama hatti.

„Þeir sóttu nú ekki mikið af gögnum, þetta var voðalega lítið,“ sagði Kristján. Hann kvaðst ekki hafa séð leitarheimildina og því ekki vita um hvað málið snerist.  Kristján taldi líklegt að húsleitin tengdist rannsókninni sem gerð var hjá SAF í mars 2007.

Þórður B. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fosshótela, kvaðst ekki vita til þess að starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafi gert húsleit hjá fyrirtækinu á miðvikudaginn var.

Í fréttum Ríkisútvarpsins kom fram að húsleit hafi verið gerð hjá Grand hótel en Fosshótel tilheyra sömu keðju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert