Unnið úr leitinni

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Kristinn Ingvarsson

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að eins og er standi ekki yfir fleiri húsleitir vegna gruns um auðgunarbrot eða markaðsmisnotkun. „Við erum að vinna úr leitinni og það tekur nokkra daga. Þegar leitað er á svona mörgum stöðum tekur það tíma,“ segir Ólafur.

„Nú verður farið yfir tölvur og metið hvort eitthvað sé sem þurfi að skoða. Því sem ekki hefur gildi verður svo skilað,“ segir Ólafur. 

Í gær var gerð húsleit á tólf stöðum og síðastliðinn þriðjudag, að undangengum dómsúrskurðum. Rannsaka á kaup Q Iceland Finance, eignarhaldsfélags sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani frá Katar á um 5% hlut í Kaupþingi í september síðastliðnum.

Leitað var m.a. á heimili Ólafs Ólafssonar og á skrifstofu Iceland Finance ehf. sem er til húsa hjá lögmannsstofunni Fulltingi á Suðurlandsbraut. Þá var leitað á skrifstofum Arion verðbréfavörslu og á skrifstofum Kjalars sem er eignarhaldsfélag í eigu Ólafs.

Yfirheyrslur eru hafnar og eru nokkrir með stöðu grunaðra, brotin sem um ræðir geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Upphaf málsins má rekja til bréfs sem Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, sendi til lögreglu en líkt og Davíð upplýsti í Kastljósþætti þann 24. febrúar sl. að fréttir hefðu borist af því að lögreglu hefði borist nafnlaust bréf sem varð til þess að sjeik í Katar og hundruð milljarða tilfærslur á peningum komu upp á yfirborðið. Davíð sagði, að upplýsingarnar hefðu að vísu borist sér nafnlausar en bréfið hefði hann skrifað lögreglunni 2. desember. Þetta hefði valdið breytingum í skilanefndum Kaupþings og víðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert