77 ára og skuldum vafinn

Vilhelm Þór Júlíusson verður  77 ára á laugardag og hefur unnið erfiðisvinnu nær alla tíð, eða þar til honum var sagt upp í fyrra. Hann þurfti að byrja aftur frá grunni þegar hann stóð á fimmtugu en í dag stendur hann uppi með minna en ekki neitt.

Vilhelm tók hundrað prósenta lán upp á tólf komma sex milljónir til að kaupa litla tveggja herbergja í íbúð í Dúfnahólum. Hann hefur alltaf staðið í skilum en lánið hefur hækkað um fimm milljónir og er nú sautján komma sex milljónir langt yfir markaðsvirði íbúðarinnar.

Hann keypti sér líka bíl fyrir 1590 þúsund árið 2006 og fór þá eftir ráðleggingum bílasalans þótt hann hefði vantrú á því að taka myntkörfulán. Hann hefur borgað af bílnum í hverjum mánuði en bíllinn er þó miklu minna virði en lánið.

Hann hefur sótt um að frysta hluta lánanna til að leysa málið tímabundið. Hann segist efast um að standa nokkurn tímann undir afborgunum í framtíðinni sökum atvinnuleysis og elli.

Vilhelm hefur reynt að sleppa úr þessu óleysanlega reikningsdæmi og vildi skila lyklinum og fara í félagslega íbúð fyrir aldraða þótt hann þyrfti að taka með hluta af skuldunum. Meðalaldurinn þeirra sem fá slíkt úrræði er hinsvegar 87 ár og því ólíklegt að að það verði á næstu tíu árum.

  
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert