Ættu frekar að fæða fólk sem lifir við hungurmörk

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræðir við fréttamenn.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræðir við fréttamenn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fordæmir mjög harðlega tilraunasprengingu Norður Kóreumanna í gærkvöldi. Hann segir íslensku ríkisstjórnina andsnúna hverskyns beitingu kjarnorkuvopna og muni að sjálfsögðu beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að dregið verði úr notkun þeirra.

„Þessu hefur þegar verið harðlega mótmælt um allan heim og mér finnst það mjög slæm tíðindi að á sama tíma og annars staðar er dregið úr notkun kjarnorkuvopna skuli þetta fátæka land eyða gríðarlegum fjárhæðum til þróunar þeirra - þá fjármuni ætti frekar að nota til þess að fæða svanga munna því margir landsmanna lifa við hungurmörk,“ sagði utanríkisráðherra við Fréttavef Morgunblaðsins.

Össur segir sprenginguna örugglega auka mjög spennu í norðaustur Asíu og ógna afar viðkvæmu friðarjafnvægi. Kóreumenn búi augljóslega yfir betri tækni en áður því þessi sprengja ku 26 sinnum stærri en síðasta kjarnorkusprengja sem þeir sprengdu í tilraunaskyni.

Össur segir þjóðir heims þurfa að taka höndum saman og berjast gegn vígbúnaði af þessu tagi, og er sannfærður um að svo verði. „Ég fagnaði því mjög að Obama Bandaríkjaforseti skyldi lýsa því yfir á leiðtogafundi Nató á dögunum að Bandaríkjamenn ætluðu sér að taka upp nýja stefnu í þessum málum og berjast gegn kjarnorkuvopnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert