Rætt um vinnulag og samráð

Forsvarsmenn ríkisstjórnar, ASÍ og SA á fundi í Stjórnarráðinu undir …
Forsvarsmenn ríkisstjórnar, ASÍ og SA á fundi í Stjórnarráðinu undir kvöld. mbl.is/Kristinn

„Það er búið að taka allan veturinn í að undirbúa þetta. Nú er kominn tími ákvarðana,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að loknum fundi aðila vinnumarkaðarins og forystumanna ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu kvöld.

Fundurinn um fyrirhugaðan stöðugleikasáttmála hófst kl. 18.00. Hann sátu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra af hálfu ríkisstjórnarinnar. Fulltrúar vinnumarkaðar og atvinnulífs voru auk forseta ASÍ þeir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR og staðgengill formanns BSRB, og Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Gylfi sagði að á fundinum hafi aðallega verið rætt um vinnulag og hvernig samráði verður háttað milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar á fundi í Stjórnarráðinu í kvöld.  að í þeim efnum hafi einkum verið horft til ríkisfjármála, efnahags- og atvinnumála.

„Það var ekki verið að fjalla um neitt efnislega, annað en hvernig við munum manna þessi verkefni,“ sagði Gylfi. Vinna við að koma á fót samstarfsvettvangi aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins hófst á þriðjudag í síðustu viku. Þá kom Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra til fundar í Karphúsinu. Þar var m.a. rætt um form og innihald stöðugleikasáttmála.

„Við á vinnumarkaðnum kölluðum eftir því að geta haft samráð við ríkisstjórnina um stefnumörkun, en ekki bara embættismenn hennar,“ sagði Gylfi. Hann sagði horft til þess samstarfs sem gilti á sínum tíma við gerð þjóðarsáttarinnar.

„Það er mikill vilji til að finna leiðir til þess. Það er stefnt að því að reyna að nota þessa viku í launaliðinn og þoka áfram upplýsingagjöf um aðra þætti. Ef við náum landi á föstudag varðandi launaliðinn þá er mikilvægt að setja kraft í alla vinnu eftir hvítasunnuhelgina.

Við á vinnumarkaðnum höfum gefið okkur tíma til 9. júní til að vinna að þessu,“ sagði Gylfi

Hann sagði að auk ráðherra þyrfti að ræða við Alþingi, þingflokka, þingnefndir og formenn þeirra. Mikilvægt væri að umræðan yrði fjölþætt svo það skapist samfella í því sem gert verður.

„Að það sé ekki þannig að þegar menn hafa náð saman á einum stað að það eigi þá eftir að fara í gegnum umræðu annars staðar. Út úr þessu getur þá orðið samstilling á sjónarmiðum,“ sagði Gylfi.

„Öll þessi vinna miðast við að vera komin með eitthvað bitastætt, sem við getum þá notað sem efni til að kynna upp í kjarasamning, 9. júní. Það verður að vinna þetta mjög hratt. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt. Það er búið að taka allan veturinn í að undirbúa þetta. Nú er kominn tími ákvarðana.“

Gylfi kvaðst ætla að leyfa sér að vera bjartsýnn á árangur þessara viðræðna. „Ég held að allir sem að þessu koma líti þannig á að það sé verkefni okkar nú að stilla saman strengina og finna leiðir. Mér finnst allir vera tilbúnir til þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert