Telja tveggja háskóla kerfi farsælast

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar

Nefnd alþjóðlegra sérfræðinga, sem hefur frá upphafi árs haft það að hlutverki að fjalla um framtíð menntunar, rannsókna og nýsköpunar á Íslandi, skilaði niðurstöðum sínum í dag.

Að mati nefndarinnar, sem Christoffer Taxell fyrrum ráðherra vísinda- og tæknimála og núverandi kanslari Åbo Akademi háskólans í Finnlandi stýrði, eiga íslensk stjórnvöld að viðhalda fjárfestingum í menntun á öllum skólastigum, endurskoða mennta- og rannsóknakerfið, leggja áherslu á nýsköpun, bæta og styrkja stjórnsýslu rannsókna og nýsköpunar og ná samstöðu um skammtímabreytingar og hrinda þeim hratt í framkvæmd. 

Meðal þess sem nefndin leggur til er að íslenska háskólakerfið verði endurskipulagt eins fljótt og auðið er með nýrri sýn á hvernig megi hámarka hugsanleg samlegðaráhrif og hagræðingu. Telja sérfræðingarnir tveggja háskóla kerfi líklegast til að tryggja langtíma árangur. „Einn háskóli byggður á Háskólanum í Reykjavík, með Listaháskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst, og annar háskóli byggður á Háskóla Íslands með öllum ríkisháskólunum. Til skamms tíma þýðir það að hér verði einn einkaháskóli og einn ríkisháskóli, en þegar til lengri tíma er litið leggjum við til að þessi munur verði afmáður,“ segir m.a. í skýrslunni. Tekið er sérstaklega fram að háskólanir tveir ættu að halda í landsbyggðaútibúin sem nauðsynlegan hluta starfseminnar. 

Nefndin mælir með því að stefnt verði að gagnsærra fjármögnunarkerfi fyrir háskólana. „Þegar mismunandi fjárstreymi er skoðað þarf sérstaklega að huga að því að fjármögnun rannsókna og innheimta skólagjalda verði sambærileg í öllu kerfinu. Hvað varðar skólagjöld sérstaklega þá er nauðsynlegt að skoða þau almennt og hugsanlega taka þau upp á stærri skala en er gert í dag.“

Sérfræðinefndin bendir á að hagkerfi Íslands sé of lítið til að landið geti keppt alþjóðlega á öllum sviðum vísinda, tækni og nýsköpunar. Því leggur nefndin til að áhersla verði lögð á tiltekin svið þar sem möguleikar á vexti eru góðir. „Okkur virðast þrjú fræðisvið sérstaklega lofandi: Jarðhitavísindi, lífvísindi og skapandi greinar/upplýsingatækni,“ segir m.a. í skýrslunni. Tekið er fram að heilbrigðisvísindi sé lofandi svið sem ekki sé fullnýtt hérlendis. Jafnframt ráðleggur nefndin ríkisstjórn Íslands að beita sér sérstaklega á skýran og gagnsæjan hátt fyrir því að varðveita þekkingargrunninn sem Íslensk erfðagreining hafi byggt upp.   

Skýrsla nefndarinnar var kynnt á fundi með Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra, og Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra sem og rektorum landsins. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu er von á niðurstöðum frá innlendi verkefnastjórn sem hafði sama verkefni og sú erlenda síðar í dag eða á morgun. 

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is
Háskólinn á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst. mbl.is/Þorkell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert