Einar Karl ráðinn til Landspítalans

Einar Karl Haraldsson
Einar Karl Haraldsson

Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í iðnaðarráðuneytinu, hefur verið ráðinn til Landspítalans í sex mánuði, frá og með 1. september nk, til þess að móta og festa í sessi nýtt vinnulag á sviði almannatengsla í samvinnu við forstjóra, framkvæmdastjórn, deildarstjóra kynningarmála og aðra stjórnendur og starfsmenn spítalans.

Aukin almannatengsl og meira gegnsæi í stjórnun Landspítala eru meðal sex helstu markmiða forstjóra Landspítala á árinu 2009. Meðal annars verður lögð aukin áhersla á tengsl við hagsmunasamtök sjúklinga og aðstandenda, aukin samskipti við stéttarfélög, opnari stjórnsýslu, skýrari leikreglur og á greinargóða upplýsingamiðlun, þar á meðal með nýjum upplýsingavef, að því er fram kemur á vef Landspítalans.

Einar Karl á að baki langan feril sem ritstjóri fjölmiðla og ráðgjafi í almannatengslum fyrir félaga- og stjórnmálasamtök, opinbera aðila og fyrirtæki. Hann mun í sumar undirbúa starfið framundan sem verktaki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert