8 ár fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í 8 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.  Þá var maðurinn dæmdur til að greiða stúlkunni 2,5 milljónir króna í bætur.  Mun þetta vera þyngsti dómur, sem fallið hefur í kynferðisbrotamáli hér á landi.

Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa á árunum 2004 til 2007 haft samræði tvisvar til þrisvar í viku við stúlkuna en hún var þá á aldinum 11 til 14 ára. Þótti réttinum fullsannað, með trúverðugum framburði stúlkunnar, vitnisburði og vottorði læknis um líkamlegt ástand hennar og forstöðumanns Barnahúss um andlegt ástand hennar, auk vitnisburðar móður stúlkunnar um andlegt ástand hennar og samskipti hennar við stúpföðurinn, að hann hafi framið þann verknað sem lýst var í ákæru.

Hæstiréttur tekur fram, að við mat á sönnun sakargifta samkvæmt ákæru hafi ekki skipt máli að systir mannsins hafi borið um kynferðislega tilburði hans gagnvart sér þegar hún hafi verið barn að aldri og að maðurinn hafi viðurkennt það að vissu marki.

Hæstiréttur segir, að maðurinn eigi sér engar málsbætur. Hann hafi með háttsemi sinni brotið mjög alvarlega gegn barni sem honum var treyst og trúað fyrir í mörg ár með þeim afleiðingum að hann hafi rúið barnið æsku sinni og þeim möguleika að lifa eðlilegu lífi í sátt við sjálfa sig, aðra og umhverfi. Hann hafi misnotað gróflega þann trúnað sem stúlkan hafi sýnt honum og þá virðingu sem hún hafi borið fyrir honum sem uppalanda.

Þá hafi brotin átt sér stað á heimili stúlkunnar þar sem hún hafi átt að eiga öruggt skjól og vernd fyrir slíkri misnotkun. Hafi brotin verið til þess fallin að valda henni verulegum skaða og hafi manninum átt að vera það fyllilega ljóst. 

Héraðsdómur Suðurlands hafði áður dæmt manninn í 8 ára fangelsi og til að greiða stúkunni 3 milljónir í bætur. Tveir dómarar Hæstaréttar af fimm skiluðu sératkvæði og töldu ekki ástæðu til að lækka bæturnar.

Maðurinn framdi maðurinn að hluta til eftir að ný lög um kynferðisbrot tóku gildi hérlendis. Samkvæmt þeim er lágmarksrefsing fyrir brot af þessu tagi eitt ár en hámarksrefsing var í hinum nýju lögum þyngd í 16 ára fangelsi. 

Réttarhaldið var lokað bæði í héraðsdómi og Hæstarétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert