Kastljós sýknað

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss.
Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss.

Hæstiréttur hefur sýknað útvarpsstjóra og  starfsfólk Kastljóssins í Sjónvarpinu í miskabótamáli, sem höfðað var vegna umfjöllunar um íslenskan ríkisborgararétt konu frá Mið-Ameríku í apríl og maí 2007. Hæstiréttur segir samt að starfsmenn Sjónvarpsins hafi í ýmsum atriðum brotið gegn starfsskyldum sínum og ekki sýnt þá tillitssemi, sem ætlast hefði mátt til.

Alþingi veitti konunni ríkisborgararétt með lögum í mars árið 2007 samkvæmt tillögu allsherjarnefndar þingsins. Kastljósið og frétastofa Sjónvarpsins fjölluðu um málið í kjölfarið og kom þá fram að Lucia Celeste Molina Sierra, sem var þá tæplega tvítug, hefði aðeins búið hér á landi í um 15 mánuði og dvalist hér á landi sem námsmaður með skráð lögheimili á heimili Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra. Lucia er unnusta Birnis Orra Péturssonar, sonar Jónínu.

Parið stefndi starfsmönnum Sjónvarpsins: Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, og þeim Helga Selja, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigmari Guðmundssyni og Þórhalli Gunnarssyni, og krafðist miskabóta, Lucia  2,5 milljóna króna og Birnir Orri 1 milljónar króna. Töldu þau m.a. að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs þeirra með ólögmætum hætti.

Hæstiréttur segir, að ætla yrði fjölmiðlum svigrúm til umfjöllunar um málefni sem þetta, sem ætti erindi til almennings og væri hluti af þjóðfélagsumræðu. Viðleitni starfsmanna Kastljóssins til að sýna fram á að afgreiðsla umsóknar Luciu væri tortryggileg og að valdi hefði verið misbeitt hefði ekki beinst að Luciu og Birni Orra heldur að þáverandi umhverfisráðherra og allsherjarnefnd Alþingis.

Hæstiréttur segir jafnframt, að umfjöllun starfsmanna Kastljóssins og viðleitni þeirra til að sýna fram á að meðferð og afgreiðsla umsóknar Luciu hefði verið óeðlileg, hafi borið ofurliði vilja þeirra til að fara rétt með staðreyndir og til að leiðrétta rangfærslur og gera viðhlítandi grein fyrir lagagrundvelli málsins.

Segir dómurinn, að þótt fallast megi á það með Luciu og Birni Orra, að starfsmenn Sjónvarpsins hefðu í ýmsum atriðum brotið þær skyldur sem á þeim hvíldu í starfi og ekki sýnt þá tillitssemi sem ætlast hefði mátt til, þá hefði umfjöllunin um persónuleg atriði, sem Luciu og Birni Orra vörðuðu, verið svo samofin málefninu að útilokað hefði verið að greina þar skýrlega á milli. Yrðu einstaklingar að nokkru marki að þola að persónuleg málefni, er þá varða, kæmu í slíkum tilvikum til almennrar umfjöllunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert