Ár liðið frá jarðskjálftanum

Sunnlendingar eru enn að vinna úr afleiðingum jarðskjálftanna sem riðu yfir fyrir sléttu ári, 29. maí 2008, og færðu Hveragerði um 15-20 cm. Gróðurhúsin í Fagrahvammi í Hveragerði skemmdust ásamt tækjabúnaði og var ekki talið borga sig að gera við. Ekki verður byggt upp að sinni og því verða Fagrahvammsrósirnar þekktu ekki ræktaðar þar næstu árin.

Íbúar í Hveragerði, Ölfusi og Árborg eru enn að vinna úr afleiðingum jarðskjálftanna. Skemmdir eru enn að koma í ljós og ekki er lokið uppgjöri allra tjóna. Fólk er að gera við hús og byggja ný og búist er við að margir vinni að endurbótum í sumar. Þá eru margir enn að vinna úr sálrænu áfalli.

Gríðarlegt tjón varð á mannvirkjum í jarðskjálftunum fyrir ári. Á þriðja tug íbúa slasaðist og talin er mesta mildi að enginn skyldi látast, miðað við hvað jarðskjálftinn var öflugur.

Dýrasti jarðskjálftinn

Viðlagatrygging Íslands hefur fengið tilkynningar um tjón á liðlega 3.500 mannvirkjum. Mikill hluti þeirra hefur verið gerður upp. Þá hefur innbústjón verið greitt út. Ásgeir Ásgeirsson framkvæmdastjóri áætlar að tjónabætur sjóðsins verði 7,5 milljarðar kr. í heildina. Er tjónið meira að meðaltali en í upphafi var áætlað. Til samanburðar má geta þess að tjónabætur eftir Suðurlandsskjálftana árið 2000 voru á fimmta milljarð á núgildandi verðlagi.

Þótt skjálftarnir fyrir níu árum hafi verið sterkari varð tjónið meira í síðasta skjálfta. Skjálftarnir 2008 urðu á þéttbýlla svæði en 2000, í nágrenni Hveragerðis og Selfoss.

Þótt samanburður sé erfiður má með sanni segja að skjálftinn í fyrra hafi verið dýrasti jarðskjálfti Íslandssögunnar. Suðurlandsskjálftarnir 1896 og 1784 voru mun öflugri og margir bæir féllu og því má búast við að hlutfallslega meira tjón hafi þá orðið miðað við heildarverðmæti eigna í landinu á þeim tíma, auk þess sem fólk lést.

Auk tjónabóta Viðlagatryggingar lagði ríkisstjórnin til rúmlega 700 milljónir kr. vegna tjóns, sem féll utan tryggingakerfisins, bæði til sveitarfélaga og einstaklinga. Þjónustumiðstöð vegna Suðurlandsskjálfta hefur haft milligöngu um styrki til einstaklinga. Ólafur Örn Haraldsson verkefnisstjóri segir að greiddir hafi verið styrkir vegna niðurrifs húsa, endurmats og hækkunar á brunabótamati og ótryggðra innbúa og verið sé að vinna úr umsóknum um styrki til fólks sem orðið hafi fyrir tjóni utan dyra sem ekki er hægt að tryggja. Þó er ljóst að bætur og styrkir taka ekki til alls fjárhagslegs tjóns einstaklinga.

Þrátt fyrir allt má segja að tjónið hafi orðið minna en styrkur jarðskjálftans gaf til kynna. Benedikt Halldórsson, jarðskjálftaverkfræðingur hjá Jarðskjálftamiðstöðinni á Selfossi, vekur athygli á því að jarðskjálftarnir á Ítalíu fyrr á þessu ári hafi verið svipaðir að stærð en afleiðingarnar ólíkt verri.

Um 30 íbúðarhús hrundu á Suðurlandi eða voru metin það illa farin að ekki borgaði sig að gera við þau. Tjón sem Viðlagatrygging hefur greitt út í Hveragerði samsvarar 3,3% af brunamótamati eigna þar. Benedikt segir að skjálftinn hafi ekki staðið lengi og mannvirki á Suðurlandi séu almennt lágreist og tiltölulega sterk. Það telur hann meginástæðu þess að ekki fór verr. „Hér er nokkuð vel staðið að byggingu húsa. Þau þola meiri hreyfingu en búast mátti við,“ segir Benedikt. Mikið tjón varð vegna þess að innanstokksmunir fóru af stað. „Við búum í landi þar sem jarðskjálftar geta orðið og þurfum að ganga þannig frá málum á heimilum okkar að tjón verði sem minnst,“ segir Benedikt.

Engar rósir ræktaðar

Rósir  verða ekki framleiddar í garðyrkjustöðinni Fagrahvammi í Hveragerði á næstunni. Gróðurhúsin skemmdust mikið í jarðskjálftunum í fyrra og þessa dagana er verið að rífa húsin sem Fagrahvammsrósirnar voru ræktaðar í. Þar með er farinn drjúgur hluti rúmlega áttatíu ára uppbyggingarstarfs fjölskyldunnar.

Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri hóf uppbyggingu garðyrkjustöðvar í Fagrahvammi seint á þriðja áratug síðustu aldar. Var hann meðal frumbyggja Hveragerðis. Við tók Ingimar sonur hans og Sigurður sonur Ingimars. Nú vinna við garðyrkjuna Helga og Ragna, dætur Sigurðar, fjórði ættliðurinn í Fagrahvammi. Þar hafa aðallega verið ræktuð blóm og rósirnar eru landsþekktar.

Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsunum í skjálftunum enda liggur nýja jarðskjálftasprungan úr Reykjafjalli rétt við endann á húsunum. Gróðurlamparnir féllu niður og Helga Sigurðardóttir heyrði glerið brotna úr hliðum húsanna þegar hún hljóp út úr íbúðarhúsi sínu eftir skjálftann.

Helga segir dýrt að gera við húsin og sérstaklega að setja upp gróðurlýsingu að nýju. „Það voru tímamót hér og ákveðið að byggja ekki elsta hlutann upp að sinni,“ segir Helga. Til stóð að skipuleggja landið fyrir byggingar en engir kaupendur eru að lóðum nú um stundir. Sigurður reiknar ekki með að úr því rætist næstu þrjú til fjögur árin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert