Braust strax inn aftur

mbl.is/Júlíus

Karlmaður um tvítugt var handtekinn síðdegis í dag, grunaður um að hafa brotist inn í hús í Hafnarfirði þar sem hann lenti í átökum við húsráðandann. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er ungi maðurinn einn þeirra, sem handtekinn var fyrir innbrot og rán í hús við Barðaströnd á Seltjarnarnesi í síðustu viku þar sem ráðist var á húsráðanda.

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vaknaði maður, sem býr í húsi í Hafnarfirði og hafði lagt sig, við umgang um klukkan 17 í dag. Reyndist ungur maður hafa brotist inn í húsið og hafði safnað saman hlutum sem hann hugðist hafa með sér á brott. Til átaka kom milli mannanna tveggja. Innbrotsþjófurinn flúði síðan á braut en húsráðandinn hringdi á lögreglu.

Tveir ungir menn voru handteknir ekki langt frá. Á heimili þeirra fundust síðan munir sem tengja má við fleiri innbrot.  Þeir gista nú fangageysmlur og bíða yfirheyrslu.

Þrír menn voru handteknir vegna ránsins á Barðaströnd og tveir þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 3. júní. Varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfesti, að mönnunum hefði verið sleppt úr haldi um helgina þar sem málið taldist upplýst og því voru rannsóknarhagsmunir ekki fyrir hendi til að halda þeim lengur.

Varðstjórinn vildi hins vegar ekki staðfesta, að annar mannanna hefði verið handtekinn á ný nú síðdegis vegna innbrotsins í Hafnarfirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert