Óljósar fregnir af sendiherra

Kínverska sendiráðið hefur ekki gefið út yfirlýsingu.
Kínverska sendiráðið hefur ekki gefið út yfirlýsingu. mbl.is/Golli

„Ég hef heyrt þennan orðróm líka en get ekkert staðfest," sagði Urður Gunnarsdóttir fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins í samtali við mbl.is er hún var innt eftir því hvort rétt væri að kínverski sendiherrann á Íslandi hafi verið kallaður heim í mótmælaskyni.

Sendiherra Kína fór á fund í utanríkisráðuneytinu í morgun og kom á framfæri óánægju kínverskra yfirvalda með heimsókn Dalai Lama á Íslandi og fundum hans með íslenskum ráðamönnum. „Mér er ekki kunnugt um að á þeim fundi hafi komið fram neinar hótanir," sagði Urður sem tók fram að hún sat ekki fundinn en telur ekki að þar hafi komið fram hótanir þess efnis að sendiherrann yrði kallaður heim.

Í kvöldfréttum Rúv var skýrt frá því að sendiherrann hafi verið kallaður heim en ekki hefur verið unnt að ná tali af starfsfólki kínverska sendiráðsins til að fá þær fréttir staðfestar.

Urður sagðist ekki vita til þess að starfsmenn utanríkisráðuneytisins hafi haft samband við kínverska sendiherrann eftir fundinn í morgun í tengslum við þetta mál.

Í fréttatíma Stöðvar2 kom fram að kínverski sendiherrann hafi borið fregnir af brotthvarfi sínu til baka og lýst þær úr lausu lofti gripnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert