Boðað til sáttafundar um fyrningarleið

Sjávarútvegsráðherra mun væntanlega senda hagsmunaaðilum í sjávarútvegi erindisbréf á næstu dögum og óska eftir að sest verði niður og kannað hvort hægt er að ná sátt um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þetta kom fram í svari Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði forsætisráðherra um áform ríkisstjórnarinnar um fyrningarleiðina í sjávarútvegi. Ólíkar yfirlýsingar væru um málið af hálfu stjórnarliða. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, hefði sagt á fundi í Vestmannaeyjum í gær að fullkomin óvissa væri um hvort þessi leið yrði farin en Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, hafi sagt í viðtali að fyrningin gæti átt sér stað á 3 árum. Þá hefði komið fram að ríkisstjórnin áformaði að hefjast handa við fyrningu aflaheimilda 1. september á næsta ári.

Sagði Einar að aldrei yrði sátt um fyrningarleiðina í sjávarútveginum. Þetta mál væri þegar farið að valda verulegu tjóni hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Þannig hafi fyrirtækið 3X Technology á Ísafirði nú í fyrsta skipti þurft að ákveða sumarlokun „sem er bein afleiðing af hótun ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið,“ sagði Einar.

Jóhanna sagði að staðan væri sú að meirihluti væri fyrir því á Alþingi að skoða fyrningarleiðina. Það lægi skýrt fyrir í stjórnarsáttmálanum.

„Hitt er annað mál að við höfum átt nokkra fundi með Landssambandi íslenskra útvegsmanna, eina þrjá fundi, þar sem við höfum verið að ræða hvernig á þessu máli er tekið. Það er fullur vilji fyrir því að allir hagsmunaaðilar komi að borðinu og ég veit ekki betur en að sjávarútvegsráðherra sé að vinna að þeirri hugmyndi til þess að ræða hvort einhver sátt geti náðst um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og sjávarútvegsstefnunni.

Ég tel nauðsynlegt að við tökum okkur ekki langan tíma í það að reyna að kortleggja stöðuna og greina vandann og þá valkosti sem fyrir hendi eru. Það er nú á borði sjávarútvegsráðherra að vinna það og ég á von á því að á næstu dögum komi erindisbréf frá sjávarútvegsráðherra  til allra þessara hagsmunaaðila um að setjast nú að borði og athuga hvort hægt er að ná sátt í þessu máli. En það er alveg ljóst að með því að setjast að borðinu eru stjórnarflokkarnir ekki að ýta til hliðar þeim hugmyndum sem þeir hafa um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert