Þolinmæðin á þrotum

Sex ÁRA drengur var hætt kominn síðdegis á miðvikudag þegar hann hljóp yfir Vesturlandsveg fyrir ofan Klébergsskóla. Flutningabifreið sem kom aðvífandi þurfti að nauðhemla og mældust bremsuför bifreiðarinnar yfir þrjátíu metra löng. Drengurinn var með öðrum og höfðu þeir fylgt litlum læk sem liggur undir veginn. Engar hindranir eru við veginn, sem er sá umferðarþyngsti á landinu. Íbúar á Kjalarnesi eru langþreyttir á aðgerðarleysi stjórnvalda vegna vegarins og krefjast úrbóta. Þeir útiloka ekki mótmælaaðgerðir í sumar, s.s. að loka veginum að hluta, verði ekki hlustað á kröfur þeirra.

Íbúðabyggð er báðum megin við Vesturlandsveginn og Klébergsskóli, með sína 160 nemendur, aðeins í um sextíu metra fjarlægð. Ásgeir Harðarson, íbúi á Kjalarnesi og meðlimur í hverfisráði, segir mörg dæmi þess að eftirlitslaus börn fari yfir veginn og oftar en ekki sé mikil hætta á ferðum. Hann tók saman af vef Vegagerðarinnar tölur yfir umferð síðdegis á miðvikudag. Þá fóru um vegarkaflann 115 bifreiðir á tíu mínútna tímabili eða einn bíll á hverjum fimm sekúndum.

Hverfisráð Kjalarness mun bregðast við með opnum íbúafundi í næstu viku. Samgönguráðherra og fulltrúar Vegagerðarinnar verða boðaðir á fundinn og skýrra svara krafist um hvenær og í hvaða framkvæmdir verður farið. Íbúar hafa lengi farið fram á tvöföldun Vesturlandsvegar auk undirganga til að tengja byggð beggja vegna vegarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert