Mjög mikilvægur áfangi

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna Icesave-samkomulagið á fundi …
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna Icesave-samkomulagið á fundi í Stjórnarráðinu. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að ríkisstjórnin líti á samninga um Icesave-reikninga Landsbankans sem mjög mikilvægan lið í endureisn íslenska fjármálakerfisins. Fjármálaráðherra segir, að vextir, sem kveðið er á um í samkomulaginu, 5,55%, séu afar hagstæðir og niðurstaðan sé sú besta sem völ var á.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að ekki hefði verið undan þessu máli vikist og að hans mati hefði tekist að landa eins hagstæðu samkomulag í þessi annars mjög erfiða og þungbæra máli og völ hafi verið á. Þannig séu vextir, sem kveðið sé á um í samkomulaginu, 5,55%, afar hagstæðir.

Þá sagði Steingrímur, að þessar skuldbindingar hefðu engin áhrif á brúttó skuldastöðu ríkissjóðs og þar með lánastöðu hans og lánshæfismat þar sem um væri að ræða skuldbindingar Tryggingarsjóðs innistæðueigenda, sem væri sjálfstæður aðili. Gert er ráð fyrir að stjóðurinn tali lán með ríkisábyrgð, sem verði virk 2016. 

„Mikilvægi þess að gera málið upp svona er ómælt. Við erum að sigla inn í erfiðasta tímann og vera með ríkissjóð og þjóðarbúið varin af áhrifum frá þessu næstu árin er gríðarlega mikilvægt," sagði Steingrímur á fundinum. 

Steingrímur sagðist hafa undir miðnættið í gær fengið bréf frá breska fjármálaráðuneytinu, þar sem staðfest var að hafinn væri undirbúningur að því að aflétta frystingu eigna Landsbankans á Bretlandseyjum. Það hefði enda verið ein af samningskröfum Íslands. 

Í samkomulaginu er kveðið á um 5,55% ársvexti, þ.e. 1,25% álagi ofan á lágmarsviðmiðunarvexti OECD sem eru 4,3%.  Gert er ráð fyrir að ef enn betri lánskjör bjóðast á lánstímanum verði hægt að greiða lánið upp. Miðað er við að vextir reiknist frá febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert