Íslenska sauðkindin í tísku

Tíu tonn af íslenskri ull voru notaðar í fyrra til að framleiða íslenskar hágæða tískuvörur. Íslenskar, kínverskar, eistneskar og portúgalskar prjónakonur keppast við að prjóna íslenskar lopapeysur fyrir hönnunarfyrirtækið Farmers Market. Hönnuður fyrirtækisins segir eftir miklu að slægjast í hönnum en til að mynda er fatahönnun fjórða stærsta útflutningsgrein Dana.

 Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði í lítilli verslun við Laugaveginn. Hannað er út frá íslensku hráefni en fötin byggja að stórum hluta á íslenskum menningararfi.  

Prjónaðar voru tuttugu þúsund flíkur úr íslenskri ull í fyrra og notað band frá Icetex. Vörur með íslensku lopamynstri hafa slegið í gegn en nú eru væntanlegar á markaðinn, buxur úr fiskiroði. Bergþóra Guðnadóttir hönnuður á fyrirtækið ásamt Jóel Pálssyni manni sínum en hún hannar allan fatnað.  

Bergþóra segir handverksfólk oft viðkvæmt fyrir hönnun sem byggir á sömu menningararfleið. Það sé hinsvegar reginmunur á hönnun og handverki. Hönnuðir sæki gjarnan innblástur í ýmiskonar handverk en líka í bókmenntir, landslag , tónlist og margt fleira. Handverksfólk búi hinsvegar til einstakar flíkur og selji á þar til gerðum stöðum eins og í verslunum fyrir ferðamenn. Handverksfólk hafi stundum orðið tortryggið út í hönnuði sem sæki í hefðbundin mynstur eða arfleið. Það sé þó mikilvægt að halda þessum arfi á lífi og nota hann til að skapa eftirsóknarverða stemmningu.

Hún segir fólk ekki gera sér grein fyrir hvað hönnun skapi mörg ólík störf, hönnuðir vinni með framleiðendum, grafískum hönnuðum, handverksfólki, markaðsfræðingum verslunum og prentsmiðjum. Danir standi framarlega í hönnun en þar sé fatahönnun fjórða stærsta útflutningsgreinin og velti 500 milljörðum á ári. Þá  sé framleiðslan ekki talin með.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert